Innlent

Airbnb-íbúðir oft tengdar mansali

Helga María Guðmundsdóttir og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Mansal er vaxandi vandamál á Íslandi og arðbær fyrir þá sem standa fyrir henni. Ráðstefnan Þrælahald nútímans fór fram á Grand hóteli í dag. Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að yfirmaður mansalsmála í Noregi segi nauðsynlegt að gera aðgerðarplan á Íslandi sem hægt sé að vinna eftir.

„Þolendurnir semsagt eru í rauninni þannig að þeir tala kannski ekki endilega fyrir sjálfa sig, það er einhver sem fylgist með þeim, jafnvel sama hvað hann er að gera. Þolandinn veit kannski ekki endilega nákvæmlega hvar hann er,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á Höfuðborgarsvæðinu um hvaða einkennum fólk eigi að horfa eftir. Hún segir að þolandinn ráði sýnilega ekki yfir sínu lífi og sínum líkama.

„Við erum með miklu stærri hóp af erlendu verkafólki sem að við vitum að eru áhættuhópur og með sama hætti hafa verið vísbendingar um að vændi sé að aukast.

„Það er hægt að setja fram aðgerðaráætlun á landsvísu þar sem tilgreind eru mikilvæg mál sem vinna ber að á Íslandi. Þetta er afar brýnt og stjórnvöld verða að koma slíkri áætlun á fót. Þá verður hægt að vísa til þessarar aðgerðaáætlunar og benda á að gripið hafi verið til þeirra ráðstafana sem framkvæmdastjórn ESB hefur reynt að koma á laggir  í öllum aðildarríkjum Sambandsins. Færnin er fyrir hendi til að greina þetta og hjálpa. Þá munu fleiri fórnarlömb þora að stíga fram,“ segir Knut Bråttvik samhæfingarstjóri í mansali hjá KRIPOS í Noregi.

Airbnb-íbúðir oft tengdar mansali

Aðspurð um það hversu umfangsmikið mansal væri á Íslandi svaraði Alda Hrönn Jóhannsdóttir yfirlögfræðingur hjá lögreglunni að tilfellin væru fleiri en 20. Alda Hrönn ræddi mansal í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hún sagði meðal annars að almenningur þurfi að vera meðvitaður um það hvað er að gerast í kringum hann.



„Þetta kann að vera í næstu íbúð, þetta eru Airbnb-íbúðir sem eru oft lánaðar og það er svolítil vændisstarfsemi sem fram fer í einhverjum þeirra íbúða. Það er líka varðandi hvernig fer fólk til og frá vinnu, er það frjálst ferða sinna? Vinnur það við sæmileg kjör, það er að segja, er vinnutíminn virtur, er hvíldartími virtur? Hvar býr fólkið, býr það fyrir ofan vinnustaðinn eða ekki? Eða í einhverri kjallaraholu eða 17 saman í tveggja herbergja íbúð? Eða hvernig eru aðstæður fólksins?“

 

Börn neydd í vasaþjófnað

Þau börn sem eru með foreldrum sínum eru oft send í vasaþjófnað. Aðspurð hvort það væri tilfellið hér á landi svaraði Alda Hrönn því játandi.

„Við höfum ákveðnar vísbendingar um ákveðin mál já.“

Segir að næsta skref sé að vinna betur. „Við þurfum að skanna þetta betur og fræða betur þannig að við séum öll meðvituð.“

Hún sagði einnig mikilvægt að brýna fyrir fólki að tilkynna ef það grunar að mansal sé að eiga sér stað.



Umfjöllun Stöðvar 2 má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×