Tónlist

Gauti festist í Dressmann auglýsingu í nýju myndbandi

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Gauti virðist hafa fests í norskri herrafataauglýsingu.
Gauti virðist hafa fests í norskri herrafataauglýsingu. Mynd/Magnús Leifsson
Nýjasta lagið frá Emmsjé Gauta og myndband við kemur út í dag. Þetta er fyrsta lagið af væntanlegri plötu og nefnist það Hógvær. Það eru þeir Björn Valur og Redd Lights sem pródúsera og útsetja lagið og Magnús Leifsson sem leikstýrir myndbandinu.

„Þetta átti ekki að vera fyrsti singúll en okkur fannst þetta svo grípandi að við urðum eiginlega að gefa það út þannig. Ég vildi fara í „high class“ endann á tónlistarmyndbandi með laginu svo að ég hafði samband við Magga [Magnús Leifsson]. Hann hefur náttúrulega gert með mér myndbönd við Svona er þetta og Strákarnir með mér. Honum leist vel á lagið en hann er þannig að þótt þú labbir inn með pening þá þarf lagið líka að vera gott, annars ýtir hann verkefninu bara frá sér,“ segir Gauti spurður um ferlið bak við myndbandið. Í myndbandinu er unnið svolítið með gömlu góðu Dressmann auglýsingarnar þar sem myndarlegir karlmenn á besta aldri spranga um í snyrtilegum fatnaði. En hvers vegna?

„Þetta byrjaði þannig að Maggi sendi mér myndband þar sem hann var búinn að klippa saman gamlar Dressmann auglýsingar við lagið. Mér fannst þetta í fyrstu skrítið og skildi ekki alveg hvað var í gangi – en svo meðtók ég það og fannst þetta fyndnasta dót í heimi. Í staðinn fyrir að gera þetta týpíska rappmyndband með alls konar „loc­ations“ að taka þennan Dressmann heim og blanda honum saman við rappheiminn sem kemur ógeðslega fyndið út. Lagið heitir semsagt Hógvær og í myndbandinu er verið að skoða karlmennskuímyndina, nægjusemi og það að fullorðnast. En ég má ekki segja of mikið um myndbandið – fólk verður bara að horfa og túlka fyrir sig.“

Hvernig fóruð þið að því að finna föngulega karlmenn til að leika í myndbandinu?

„Við Maggi vorum bara að funda saman um hverjir væru heitustu silfurrefirnir á landinu. Það var alveg pínu fyndið. Það voru þarna augnablik þar sem ég sýndi Magga einhvern gaur og hann var bara „pff, hann er ekkert heitur“ og ég var alveg „jú, hann er víst heitur“.

Það var líka eitt að finna þá og svo annað að hringja í þá. Sumir þessara manna voru einhverjir sem við þekktum ekki neitt. Vignir t.d. – við þekkjum hann bara sem Lottógaurinn og gæjann sem afgreiðir mann með skyrtur í Kúltúr. Hann er svo mikill „alpha male“ að maður bara fékk í hjartað þegar maður þurfti að kaupa skyrtu af honum – þannig að það var reynsla að þurfa að hringja í hann og segja: „Sko, við Maggi vorum á fundi og okkur finnst þú vera heitur silfurrefur, viltu vera með í myndbandi?“ En þetta small rosalega vel og allir til í þetta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×