Lífið

Þjáist af liðagigt en getur haldið sjúkdómnum niðri með lyfjum

Elín Albertsdóttir skrifar
Guðrún Árný ásamt dóttur sinni, Hönnu Lóu, en söngkonan saumaði fötin á hana, kápuna og buxur.
Guðrún Árný ásamt dóttur sinni, Hönnu Lóu, en söngkonan saumaði fötin á hana, kápuna og buxur. MYND/ERNIR
Guðrún Árný Karlsdóttir er fjölhæf tónlistarkona. Hún fléttar saman störf sín sem tónmenntakennari og söngkona á skemmtilegan hátt.

Guðrún Árný blómstrar sem aldrei fyrr. Hún hefur sungið frá því hún var lítil stúlka, meðal annars með barnakór Öldutúnsskóla í Hafnarfirði. Guðrún Árný segist vera aðfluttur andskoti í Hafnarfirði en hún flutti í bæinn þegar hún var tólf ára. „Áður átti ég heima á nokkrum stöðum, bæði í Reykjavík og úti á landi, en móðir mín og maður hennar eru kennarar. Þau höfðu ánægju af því að skipta um umhverfi og bjuggu gjarnan í kennarabústöðum,“ segir hún.

Guðrún Árný, sem er fædd árið 1982, bar sigur úr býtum bæði í söngkeppni Samfés sem unglingur og Söngkeppni framhaldsskólanna. Hún hefur fimm sinnum tekið þátt í undankeppni Eurovision-keppninnar og fór sem bakrödd með Gretu Salóme og Jónsa til Bakú árið 2012.

Fjör í skólastofunni

„Ég fór í tónlistarnám vegna þess hversu skemmtilegt mér þótti að spila á píanó og syngja. Síðan ákvað ég að taka kennsluréttindi fyrir grunn- og framhaldsskóla því að mér finnst gaman að vera innan um börn. Ég hef verið að kenna yngstu börnunum í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði. Ég segi oft við börnin mín að maður eigi að læra það sem manni finnst skemmtilegt því þá verður vinnan svo auðveld. Krökkum finnst æðislegt að læra tónmennt, við notum hljóðfæri og það er oft mikið fjör í tímum. Velgengni Íslendinga í tónlistarheiminum hefur heilmikil áhrif á yngstu börnin. Við syngjum gjarnan vinsælustu lögin í þjóðfélaginu. Frikki Dór er í uppáhaldi hjá nemendum mínum, enda frábær strákur og hæfileikaríkur.“



Happy Hour

Guðrún Árný á þrjú börn, það yngsta dóttur á öðru ári, og syni 9 og 12 ára. Hún er sannkölluð ofurkona því dagarnir eru oft þéttskipaðir.

„Móðir mín hefur stundum áhyggjur af því að ég brenni yfir en það hefur sjaldan verið jafn mikið að gera hjá mér í tónlistinni,“ segir hún og hlær. Á fimmtu- og föstudögum spilar hún á píanó og syngur á Grand hóteli á svokallaðri Happy Hour. „Ég er svo þakklát fyrir þessa vinnu vegna þess að ég hef frjálst val með hvað ég syng og spila. Það er alltaf að aukast að fólk kíki inn á hamingjustund á barnum. Ég á orðið marga fastagesti og svo er alltaf fjöldi útlendinga sem vill hlusta á íslenska tónlist. Þetta er allt á rólegu nótunum og fólk getur vel spjallað saman yfir notalegri stemmingu. Það má því segja að ég fari beint úr skólastofunni á barinn,“ gantast hún með en Guðrún Árný á von á samkennurum til sín á barinn í dag.

Þótt enn sé september er Guðrún Árný farin að hlakka til jólatónleika sem verða 8. og 9. desember. Þar mun hún koma fram í Las Vegas Christmas Show í Gamla bíói sem Geir Ólafs setur upp ásamt bandarísku stórsveitinni Don Randi. Hljómsveitin hefur leikið undir með heimsfrægum söngvurum eins og Elvis Presley, Frank Sinatra, Beach Boys, Abba og mörgum fleirum. Þegar er uppselt á fyrri tónleikana.

Guðrún Árný þjáist af liðagigt en getur haldið sjúkdómnum niðri með lyfjum.Vísir/Ernir

Gott djamm

Guðrún Árný er eftirsótt í brúðkaup, skírnir og jarðarfarir auk alls kyns einkasamkvæma.

„Það er brúðkaupsvertíð hjá mér á sumrin og ég býð gjarnan væntanlegum brúðhjónum heim til mín fyrir athöfnina og við veljum saman lögin. Ég er með langan lagalista og oft kemur upp óvenjulegt en skemmtilegt lag. Það eru alls ekki allir að velja sömu lögin. Svo má ég ekki gleyma að minnast á Græna herbergið en þar er ég með sing­along um helgar. Það er algjörlega frábært. Íslendingar kunna svo marga texta og eru ótrúlega duglegir að syngja með mér. Þessi dagskrá er á milli 22-01 og það er alltaf stuð. Þvílíkt partí,“ segir hún. „Þetta getur varla talist vinna því þetta er bara eins og gott djamm,“ bætir hún við.



Fjölskyldukonan

„Jú, ég á stundum frí og þá finnst mér gott að vera heima með fjölskyldunni,“ svarar Guðrún Árný spurð um frítíma.

„Það er smá púsluspil að raða allri þessari mismunandi vinnu inn í daglega rútínu okkar. Börnin mín eiga frábæran pabba sem nýtur sín vel með þeim þegar ég er í vinnunni. Ég á líka yndislega foreldra sem eru dugleg að bjarga mér með pössun. Við erum sex systkinin og pössum gjarnan hvert fyrir annað. Þannig að ég er líka oft með aukabörn hjá mér. Mínar gæðastundir eru að gera ekki neitt annað en að vera með börnunum og við nýtum þann tíma vel. Bökum köku eða förum út á róló. Svo þarf ekkert endilega alltaf að vera dagskrá heldur bara njóta samverunnar. Ég hef engar stórkostlegar áhyggjur af því hvort það sé drasl eða óhreinn þvottur. Tími fyrir líkamsrækt er kannski ekki mikill en ég reyni samt að komast af og til. Í frístundum finnst mér líka gaman að sauma og prjóna. Sauma gjarnan föt á litlu dótturina. Ég reyni að svara símtölum og tölvupóstum þegar krakkarnir eru sofnaðir og fer venjulega frekar seint að sofa,“ segir hún. „Eitt áhugamálið mitt er að klippa hár og öll fjölskyldan nýtur góðs af því. Töfraráðið mitt er engu að síður að viðurkenna að stundum kemst ég ekki yfir allt sem þarf að gera. En það er gaman að hafa margt á prjónunum.“

Guðrún Árný lifir og hrærist í tónlist. „Líf mitt er tónlist,“ segir hún. „Þótt ég hafi mikið að gera er ég furðu dugleg að hóa í vini eða fjölskyldu. Maðurinn minn, Sveinbjörn Enoksson, er mikil félagsvera og verður friðlaus ef við hittum ekki fólkið okkar reglulega. Við bjóðum gjarnan í mat, jafnvel þótt mér finnist eldamennska erfið. Ég legg samt alltaf áherslu á að fjölskyldan setjist saman á kvöldverðartíma. Best finnst mér að hafa mat sem tekur stuttan tíma að elda, eins og mexíkóska rétti eða hakk og spagettí,“ segir þessa önnum kafna söngkona.



Slæm liðagigt

Guðrún Árný þjáist af mjög slæmri liðagigt, líkt og Jóhanna Guðrún söngkona, en þær hafa hist og rætt þessa sameiginlegu reynslu. Hún reynir að lifa með sjúkdómnum og lætur hann hafa sem minnst áhrif á líf sitt. Það getur þó verið erfitt. „Í fyrra fékk ég mjög slæmt kast sem stóð yfir í tvo mánuði. Ég hafði verið lyfjalaus meðan á brjóstagjöf stóð sem hafði þessi áhrif. Á þeim tíma var virkilega erfitt fyrir mig að koma fram og syngja. Ég gat varla gengið upp tröppur. Ég fékk síðan góð lyf og þarf að passa mig að missa mig ekki í miklu salti og sykri. Ég prófaði að vera glútenlaus í þrjú ár en uppgötvaði eftir þann tíma að sykur fór verr í mig en hveiti. Það getur verið erfitt að spila á píanó þegar ég er mjög slæm því puttarnir bólgna. Heitir tímar í ræktinni hafa hjálpað mér heilmikið. Ég hef ekki rætt um þennan sjúkdóm minn og lét fáa vita hvernig mér leið í fyrra,“ viðurkennir Guðrún Árný.

Þegar hún var sem verst í fyrra söng hún við skírn. Sjálf var hún óánægð með flutninginn en gestir tóku ekki eftir veikindum hennar.

„Geir Ólafsson var gestur í skírninni. Hann kom til mín og hrósaði mér fyrir sönginn. „Túlkunin var guðdómleg,“ sagði hann. Ég sagði honum frá veikindum mínum vegna þess hversu vinsamlegur hann var. Orð hans voru einstaklega uppörvandi fyrir mig á þessum tíma. Hann hringdi óvænt til mín tíu dögum síðar og spurði um líðan mína. Einnig bauð hann mér að vera með á tónleikum sem ég gat ekki þegið þá. Hann hringdi aftur eftir áramótin og bauð mér að vera með á tónleikum í desember. Enn á ný fékk ég hvatningu og uppörvun frá Geir. Hann er ákaflega hjartahlýr og ljúfur maður,“ segir Guðrún Árný sem hefur náð sér vel á strik eftir þessi veikindi og lífið blómstrar eins og hún segir sjálf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×