Erlent

Cassini-leiðangrinum lauk með miklum blossa

Kjartan Kjartansson skrifar
Cassini hefur sent ógrynni mikilfenglegra mynda af Satúrnusi aftur til jarðar á þrettán árum á braut um gasrisann.
Cassini hefur sent ógrynni mikilfenglegra mynda af Satúrnusi aftur til jarðar á þrettán árum á braut um gasrisann. NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute
Bandaríska geimfarið Cassini bráðnaði og rifnaði í sundur með miklum blossa í lofthjúpi reikistjörnunnar Satúrnusar í morgun. Stjórnendur farsins fengu staðfestingu á því fyrir stundu. Þar með lýkur einum best heppnaða geimkönnunarleiðangri sögunnar.

Síðasta sending Cassini átti sér stað um kl. 10:30 að íslenskum tíma í morgun. Merkið tók 83 mínútur að berast til jarðar. Staðfest var að sambandið geimfarsins við stjórnstöð á jörðina hefði rofnað kl. 11:55:46.

Cassini var skotið á loft árið 1997 og komst geimfarið á braut um Satúrnus árið 2004. Ferðalag geimfarsins stóð því yfir í rétt tæp tuttugu ár og leiðangurinn við Satúrnus í um þrettán.

Á þessum tíma ferðaðist Cassini um 7,6 miljarða kílómetra, safnaði 635 GB af vísindagögnum, uppgötvaði sex ný tungl og tók hátt í hálfa milljón mynda af Satúrnusi, hringjum hans og tunglum.

Nokkrar tölulegar staðreyndir um Cassini-leiðangurinn.
Ákveðið var að ljúka leiðangrinum með því stýra Cassini niður í lofthjúp Satúrnusar þar sem geimfarið bráðnaði og rifnaði í sundur. 

Með því vildu menn forðast að örverur sem gætu hafa lifað af utan á geimfarinu gætu endað á viðkvæmum tunglum eins og Títani eða Enkeladusi ef Cassini yrði skilinn eftir stjórnlaus á braut um Satúrnus. Ekki er talið útilokað að aðstæður séu til lífs á þessum tunglum.

Stjórnendur farsins voru klökkir og féllust í faðma stjórnstöðinni JPL í Kaliforníu þegar staðfest var að Cassini hefði farist og þessu langa verkefni væri lokið.


Tengdar fréttir

Mannkynið kveður Satúrnus eftir þrettán ára heimsókn

Cassini-geimfarið hefur verið fulltrúi mannkynsins við reikistjörnuna Satúrnus í þrettán ár. Leiðangrinum lýkur á morgun þegar það þýtur niður í faðm gasrisans. Á ferðalagi sínu hefur Cassini afhjúpað leyndardóma Satúrnusar og uppgötvað nýja og framandi heima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×