Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Grindavík - Breiðablik 4-3 | Andri Rúnar einu marki frá metinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Andri Rúnar Bjarnason skoraði tvívegis gegn Blikum.
Andri Rúnar Bjarnason skoraði tvívegis gegn Blikum. Vísir/Stefán
Grindavík vann sætan sigur á Breiðablik í miklum markaleik suður með sjó í dag. Lokatölur urðu 4-3 heimamönnum í vil þar sem aðstæður settu svip sinn á leikinn.

Blikar byrjuðu leikinn betur og strax á 4.mínútu skoraði Aron Bjarnason gott mark eftir sendingu frá Martin Lund Pedersen.

Aðstæður voru erfiðar í Grindavík í dag og mikill vindur á annað markið. Grindvíkingar byrjuðu að sækja eftir mark Arons og með vindinn í bakið náðu þeir að skora í þrígang fyrir leikhlé.

Á 15.mínútu skoraði Gunnar Þorsteinsson eftir góða sókn og síðan tók markahrókurinn Andri Rúnar Bjarnason við. Hann skoraði tvö mörk og er þar með einu marki frá markameti efstu deildar.

Fyrra markið var úr aukaspyrnu af 35 metra færi þar sem Gunnleifur Gunnleifsson í marki Blika hefði mögulega getað gert betur. Seinna markið kom síðan með skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá Marínó Axel Helgasyni.

Staðan í hálfleik var 3-1 og Blikar með vindinn í bakinn byrjuðu strax á sækja í síðari hálfleiknum.

Á 52.mínútu fengu þeir vítaspyrnu þegar brotið var á Martin Lund og Hrvoje Tokic skoraði af miklu öryggi úr spyrnunni. Við tók stórsókn Blika sem ógnuðu marki Grindavíkur margoft en Kristijan Jajalo stóð vaktina vel í marki heimamanna.

Á 88.mínútu kom síðan fjórða mark heimamanna og var það sjálfsmark Elfars Freys Helgasonar varnarmanns Blika sem skallaði fyrirgjöf Arons Freys Róbertssonar í markið. Blikar voru þó ekki hættir og Gísli Eyjólfsson skoraði glæsilegt mark stuttu síðar og minnkaði muninn í 4-3.

Nær komustu Blikar ekki. Þeir pressuðu heimamenn vel á lokasekúndunum sem héldu undan og fögnuðu sætum sigri.

Af hverju vann Grindavík?

Þeir eru einfaldlega með Andra Rúnar Bjarnason í sínu liði sem gerir gæfumuinn. Andri Rúnar hefur dregið vagninn fyrir Grindvíkinga í sumar og sýndi snilli sína enn á ný í dag með tveimur góðum mörkum. Auðvitað er það ekki hann einn sem vinnur leikina og lið Grindavíkur spilaði að mestu leyti vel í dag þrátt fyrir mörkin þrjú sem þeir fengu á sig.

Blikar voru ekki nógu beittir fyrir framan mark heimamanna og nýttu til dæmis hornspyrnur sínar alls ekki nógu vel en þeir fengu fjölmargar slíkar í síðari hálfleiknum. Varnarlega voru þeir einnig ekki nógu góðir og þar hafa þeir ýmislegt að skoða enda búnir að fá á sig sjö mörk í síðustu tveimur leikjum.

Þessir stóðu upp úr:

Andri Rúnar stóð upp úr hjá Grindavík, skoraði tvö mörk og það má ekki líta af honum í eina sekúndu. Vissulega sást ekkert mikið til hans þegar Blikar pressuðu sem mest í síðari hálfleik en hann er gríðarlega mikilvægur fyrir Grindavík.

Kristijan Jajalo var sömuleiðis góður í marki Grindavíkur og gat ekki mikið gert í mörkunum sem hann fékk á sig. Þá var Marínó Axel Helgason einnig öflugur sem og Alexander Veigar Þórarinsson sem kom aftur inn í byrjunarliðið eftir meiðsli.

Hjá Blikum var Gísli Eyjólfsson bestur og skoraði frábært mark undir lokin.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Blika var ekki til að hrópa húrra yfir og Milos þjálfari talaði sérstaklega um það í viðtali eftir leikinn í dag. Í þremur af mörkum heimamanna eru þeir að spila sig í gegnum vörnina á fremur einfaldan hátt.

Leikmönnum gekk vitaskuld fremur illa að hemja boltann við aðstæðurnar sem veðurguðirnir buðu upp í dag. Leikurinn var þó hin besta skemmtun og sóknarleikur í hávegum hafður.

Hvað gerist næst?

Blikar eiga heimaleik gegn ÍBV sem getur farið uppfyrir Kópavogsliðið með sigri. Tapi þeir þar gætu þeir verið í mikilli fallhættu fyrir lokaumferðina.

Grindavík heldur norður á Akureyri þar sem þeir mæta heimamönnum í KA. Bæði lið sigla fremur lygnan sjó í deildinni og augu flestra munu væntanlega beinast að Andra Rúnari sem gerir væntanlega allt til að þess að jafna og bæta markametið.

Maður leiksins: Andri Rúnar Bjarnason, Grindavík

Einkunnir leikmanna má sjá með því að smella á flipann liðin hér fyrir ofan.

Óli Stefán: Andri Rúnar hjálpar okkur og við hjálpum honum
Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur var ánægður með karakter sinna manna í sigrinum á Blikum í dag.
Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur var ánægður með þann karakter sem liðið sýndi í leiknum gegn Breiðabliki í dag þrátt fyrir að hafa lent undir strax í upphafi leiks.

„Ég sagði við strákana á fundi fyrir leikinn að þetta snerist ekki lengur að vinna eftir einhverri uppbyggingu heldur væri þetta bara stríð. Menn þyrftu að fara út að slást, í skítavinnuna og það var það sem menn gerðu í dag og uppskáru þrjú stig,“ sagði Óli Stefán í samtali við Vísi eftir leik.

Aron Bjarnason skoraði strax á 4.mínútu leiksins í dag fyrir Blika og kom þeim yfir. Óli Stefán viðurkenndi að hann hefði ekkert verið alltof ánægður á þeim tímapunkti en hrósaði sínum strákum fyrir viðbrögðin sem þeir sýndu.

„Það hefur verið mótlæti síðustu vikur og við höfum verið vælandi og skælandi yfir öllu. Við gerðum það ekki í dag heldur brettum upp ermar og það skilaði sér. Það að lenda undir ellefta leikinn í röð hefði brotið einhverja niður en ekki þessa stráka, þeir héldu áfram og voru rosalega duglegir,“ bætti Óli Stefán við.

Andri Rúnar Bjarnason framherji Grindavíkur skoraði tvö mörk í dag og er núna aðeins tveimur mörkum frá markamesti efstu deildar. Munu Grindvíkingar leggja upp með það í síðustu tveimur leikjunum að hjálpa honum að ná metinu?

„Ég hef alltaf sagt að Andri Rúnar hjálpar okkur og við hjálpum honum. Hvorki hann né við höfum verið að velta þessu meti mikið fyrir okkur en ef við vinnum svona áfram og ef hann vinnur svona áfram þá fær hann færin til að skora fleiri mörk og til að ná í fleiri stig fyrir okkur. Það er það sem þetta snýst um.“

Milos: Ekkert nýtt að klúðra þessu
Milos var svekktur eftir tapið í dag.vísir/anton
„Það er erfitt að gera upp leikinn. Þeir áttu fimm skot á rammann og skora fjögur mörk. Án þess að hafa talið þá áttum við fleiri góð færi en boltinn vildi ekki inn,“ sagði Milos Milojevic þjálfari Breiðabliks eftir 4-3 tapið í Grindavík í dag.

Blikar komust yfir snemma leiks en voru samt voru það Grindvíkingar sem gengu til búningsherbergja í leikhléi með 3-1 forystu. Fannst Milos vanta upp á karakter hjá sínu liði í dag?

„Já og nei. Í þessu veðri er lítið hægt að tala um fótbolta. Við áttum að vera klókari og lesa aðstæður aðeins betur sem við gerðum ekki og þess vegna erum við 3-1 undir í hálfleik. Við hefðum léttilega getað komið í veg fyrir öll mörkin en gerðum það ekki.“

„Það var erfitt að koma aftur til baka í seinni hálfleik. Við áttum fullt af færum og að mig minnir tvö dauðafæri í byrjun seinni hálfleiks. En það er ekkert nýtt fyrir okkur að klúðra þessu.“

Blikar eru fjórum stigum fyrir ofan Víking Ólafsvík sem eru í fallsæti. Þeir eiga næst heimaleik gegn ÍBV sem fer uppfyrir Kópavogsliðið með sigri. Hvað þurfa Blikar að laga fyrir þann leik?

„Lið sem fær á sig sjö mörk í tveimur leikjum þurfa að laga varnarvinnu, það er augljóst. Það vantar ekki gæðin þar heldur bara einbeitingu og að menn séu að spila eins og lagt er upp. Það er það sem við þurfum að gera í næsta leik,“ sagði Milos þjálfari Breiðabliks að lokum.

Gunnleifur: Við erum í fallbaráttu
Gunnleifur í leik með Blikum í sumar.vísir/andri
Gunnleifur Gunnleifsson markvörður Breiðabliks var bókstaflega skjálfandi úr kulda þegar blaðamaður hitti hann eftir leikinn gegn Grindavík í dag enda aðstæður erfiðar.

„Þetta var mjög erfitt en það er bara veruleikinn og ekkert sem við getum gert í því. Við þurfum að spila þennan leik og það eru mikil vonbrigði að tapa.“

„Það er erfitt að spila einhvern fótbolta en við fáum á okkur fjögur mörk sem er alls ekki nógu gott. Við erum að fá of mikið af mörkum á okkur og það eru vonbrigði.“

Annað mark Grindavíkur skoraði Andri Rúnar Bjarnason úr aukaspyrnu af 35 metra færi. Gunnleifur sagði að hann hefði átt að gera betur.

„Að sjálfsögðu tek ég þetta á mig, þetta er langt utan af velli og í hornið mitt. Ég náði bara ekki að verja.“

Þegar tvær umferðir eru eftir af Pepsi-deildinni eru alls ekki öruggir með sæti sitt í deildinni.

„Við erum í fallbaráttu, við erum ekki nema fjórum stigum fyrir ofan Víking Ólafsvík sem er í fallsæti. Þannig að auðvitað erum við í fallbaráttu og við verðum bara að reyna að vinna næsta leik,“ sagði Gunnleifur að lokum.

Andri Rúnar: Hvaða met ertu að tala um?
Andri Rúnar er kominn með 18 mörk í Pepsi-deildinni í sumar og vantar eitt mark til þess að jafna markamet efstu deildar.vísir/stefán
„Ég er mjög ánægður með þetta. Við spiluðum mjög vel í dag og við áttum þetta skilið. Þetta er geggjað,“ sagði Andri Rúnar Bjarnason leikmaður Grindvíkinga þegar Vísir ræddi við hann eftir leikinn gegn Blikum í dag.

Andri Rúnar skoraði tvö mörk í leiknum og er þar með kominn með 18 mörk í Pepsi-deildinni. Markametið er 19 mörk og því þarf hann aðeins eitt mark í viðbót til að jafna metið þegar tvær umferðir eru eftir af mótinu.

„Met? Hvaða met ertu að tala um?“ sagði Andri Rúnar brosandi þegar blaðamaður spurði hann út í möguleikann á að slá metið.

„Jú, að sjálfsögðu verðum við að reyna en ég ætla samt að spá ekki of mikið í þetta,“ bætti Andri Rúnar við áður en hann var truflaður af stuðningsmönnum Grindavíkur sem kölluðu að honum að hann hefði átt að setja þrennu í dag og jafna metið.

„Já, eins og þú heyrir er enginn að spá í þessu meti,“ sagði hann svo brosandi.

Andri Rúnar hefur lítið viljað ræða markametið en kemst eiginlega ekki hjá því lengur nú þegar hann er kominn jafn nálægt því og raun ber vitni.

„Næst er það bara KA og ég ætla ekkert að fara að breyta út af mínum vana heldur halda áfram eins og ég geri.“

Fyrra mark Andra Rúnars í dag var glæsilegt. Þá skaut hann að marki úr aukaspyrnu af 35 metra færi og boltinn söng í fjærhorninu.

„Ég ætlaði að setja hann þarna,“ sagði Andri og bætti við að aðstæðurnar hefðu ekkert haft með þetta að segja en mikill vindur og rigning var í Grindavík í dag.

„Þið sjáið það í Pepsi-mörkunum í kvöld, það var flökt á boltanum og allt. Þetta var mitt mark,“ sagði Andri Rúnar hæstánægður að lokum.


Tengdar fréttir

Andri Rúnar: Hvaða met ertu að tala um?

„Ég er mjög ánægður með þetta. Við spiluðum mjög vel í dag og við áttum þetta skilið,“ sagði Andri Rúnar Bjarnason leikmaður Grindvíkinga þegar Vísir ræddi við hann eftir leikinn gegn Blikum í dag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira