Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - Stjarnan 2-2 | Skagamenn enn á lífi

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Jóhann Laxdal og Eyjólfur Héðinsson.
Jóhann Laxdal og Eyjólfur Héðinsson. Vísir/Anton
ÍA og Stjarnan skildu jöfn, 2-2, þegar að liðin mættust á Norðurálsvellinum í 20. umferð Pepsi-deildar karla í dag. Stigið gerir lítið fyrir liðin. Von Skagamanna um að halda sér uppi í deild þeirra bestu hangir á bláþræði og möguleikar Stjörnumanna á titlinum eru nú nánast engir.

Skagamenn hófu leikinn af miklum krafti og skoruðu strax í fyrstu sókn. Arnar Már með flottan skalla eftir fyrirgjöf Alberts af vinstri kantinum. Varnarmenn Stjörnunar hins vegar sofandi á verðinum.

Eftir þetta tók Stjarnan öll völd í leiknum og skilaði það sér í flottu jöfnunarmarki Guðjóns Baldvinssonar. Eyjólfur Héðinsson með flotta stungusendingu inn fyrir á Guðjón sem kláraði færið glæsilega, vippaði yfir Árna Snæ í marki Skagamanna af stakri ró.

Mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik og var staðan 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Í seinni hálfleik skiptust liðin á að sækja og var augljóst að bæði lið yrðu ekki sátt með jafntefli. Stjarnan komst yfir á 59. mínútu eftir vel útfærða skyndisókn. Hilmar Árni sem skapaði ófá færin í þesusm leik kom boltanum á Jósef sem átti flotta fyrirgjöf á Hólmbert. Hólmbert kláraði vel, réttur maður á réttum stað. Skagamenn ekki sáttir með dómara leiksins þarna og heimtuðu rangstöðu á Hólmbert.

Stjörnunni tókst ekki að gera útum leikin og varð það þeim að falli því að á 88. mínútu jöfnuðu skagamenn eftir ótrúlegan darraðadans í teignum. Steinar Þorsteinsson, sem var flottur í sóknarlínu Skagamanna í leiknum, gerði vel í að koma boltanum í markið.

Mínútu síðar varð harkalegt samstuð á vallarhelmingi Skagamanna og þurfti Hólmbert að fara með sjúkrabíl upp á sjúkrahús. Var um höfuðmeiðsl að ræða og vonandi að hann nái sér sem fyrst.

Liðin skiptust síðan á að sækja seinustu mínúturnar og er í raun ótrulegt að annað mark hafi ekki litið dagsins ljós. Jafntefli því niðurstaðan sem gerir lítið fyrir liðin eins og áður sagði.

Af hverju varð jafntefli? 

Mörg færu litu dagsins ljós á Skaganum og í raun ótrulegt að fleiri mörk hafi ekki verið skoruð. Eftir að Skagamenn byrjuðu af miklum krafti fór leikurinn nánast einvörðungu fram á vallarhelmingi Skagamanna í fyrri hálfleik, en vörn Skagamann stóðst áhlaup Stjörnunnar.

Þrátt fyrir að Stjarnan hafi verið meira með boltann í leiknum fengu Skagamenn nóg að færum í lok leiksins til að taka stigin þrjú, en tókst ekki. Það sama má segja um Stjörnuna, færanýtingin í lokin var einfaldlega ekki nógu góð.

Þessir stóðu upp úr: 

Í liði heimamanna áttu ungu mennirnir Þórður Þorsteinn og Steinar Þorsteinsson góðan leik. Augljóslega mikil efni þar á ferð. Þá voru Guðmundur Böðvar og Arnar Már öflugir á miðjunni og unnu ófáar tæklingarnar og skallabolta.

Í liði Stjörnumanna voru í raun allir miðju- og sóknarmenn þeirra sprækir. Hilmar Árni og Eyjólfur voru mikið í boltanum og sköpuðu þeir flest færi Stjönunnar. Þá var sífelld hætta af Guðjóni Baldvins, auk þess sem Hólmbert hélt boltanum vel.

Hvað gekk illa?

Fyrst og fremst gekk liðunum illa að klára leikinn og skora sigurmarkið. Fengu bæði lið urmul tækifæra í lok leiks til að sigurmarkið mikilvæga en ekki tókst.

Fyrir leik hefði mátt búast við því að liðunum myndi ganga illa að halda boltanum á jörðinni og spila sín á milli. Það varð hins vegar ekki raunin og fengum við góðan fótbolta á köflum flottan leik hér á Skaganum.

Hvað gerist næst?

Skagamenn fara í Víkina næsta sunnudag þar sem þeir mæta Víking Reykjavík klukkan 14:00. Það segir sig kannski sjálft, en það er leikur sem þeir verða að vinna ætli þeir sér að halda sæti sínu í deild þeirra bestu.

Á sama tíma fær Stjarnan Val í heimsókn í Garðabæinn.

Jón Þór: Ofboðslega stoltur af liðinu mínu

„Púlsinn er bara rétt að fara niður. Fyrstu viðbrögð eru að ég er ofboðslega stoltur af liðinu mínu. Við sýndum hjarta í þessum leik i 90 mínútur. Við komum til baka í seinni hálfleik eftir að hafa lent 2-1 undir og pressum þá stíft í lokin. Hvernig við náum síðan ekki þessu sigurmarki er óskiljanlegt,“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA í leikslok.

Hann var svekktur með úrslit dagsins en ánægður með sína menn.

„Ég er gríðarlega ánægður með liðið. Jafntefli er vonbrigði, fyrir bæði lið. Mér fannst leikurinn ótrúlega góður miðað við aðstæður.“

Jón Þór var spurður út í möguleika Skagamanna á því að halda sér uppi í Pepsi-deildinni, þegar einungis tvær umferðir eru eftir.

„Við erum ekkert rosalega uppteknir af því nákvæmlega. Við förum í Víkina af fullum krafti. Það getur þó vel verið að úrslitin verði ráðin áður en við förum þangað.“

Jón Þór var ekki sammála blaðamanni að hans menn hefðu getað stolið sigrinum í lokin.

„Mér fannst við eiga sigurinn skilið. Við setjum hann í slánna tvisvar eða þrisvar í sömu sókninni í blálokin. Síðan bjarga þeir á marklínunni. Við gerðum alveg nóg til þess að vinna þennan leik.“

Rúnar Páll: Þurfum að klárar okkar leiki

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var hundsvekktur að fá bara eitt stig úr leiknum.

„Já, ég var gríðarlega svekktur með það að fá jöfnunarmarkið á okkur hérna í lokin. Þeir pressuðu mikið á okkur í lokin og voru stórhættulegir. Hrikalega fúlt að fá þetta mark á okkur. Jafnframt var það svekkjandi að nýta ekki okkar sóknir hérna í lokin.“

Rúnar var spurður hvort hann teldi eftir þessi úrslit að þetta væri komið hjá Val í titilbaráttunni.

„Valur er í góðri stöðu. Þeir eiga leik í kvöld og við sjáum bara hvernig það fer. Það væri skemmtilegt ef Valur tapar í kvöld og við fáum þá hörkuleik gegn þeim í næstu umferð á sunnudaginn, sem ég efast ekkert um að verði.“

Rúnar var spurður hvort hann væri sáttur með Evrópusæti úr því sem komið er. 

„Það er ekkert komið. Við þurfum að klára okkar leiki og byrja á því að ná góðum úrslitum gegn Val í næsta leik. Evrópusætið er ekkert í höfn.“

Að lokum var Rúnar spurður út í líðan Hólmberts, sem þurfti að fara upp á sjúkrahús eftir harkalegt samstuð.

„Honum líður ágætlega, eftir atvikum. Hann er uppá sjúkrahúsi.“

Þórður Þorsteinn: Vonum að hin liðin drulli á sig 

Skagamaðurinn efnilegi, Þórður Þorsteinn Þórðarsson, sem átti flottan leik í dag, var pirraður í leikslok.

„Mín fyrstu viðbrögð eftir þennan leik eru bara ömurleg. Ég hef ekki hugmynd um það hvernig hinir leikirnir fóru, en það eru sex stig eftir í pottinum sem við ætlum að taka og sjá síðan hvernig fer,“ sagði Þórður Þorsteinn.

„Ef við föllum þá bara föllum við. Við erum búnir að koma okkur sjálfir í þessa stöðu og núna verðum við bara að taka þessi stig og vona að hin liðin drulli á sig.“

Haraldur: Af hverju eru viðtölin tekin hérna úti?

Haraldur var spurður hver væru hans fyrstu viðbrögð eftir leikinn í dag.

„Að fara inn í viðtal. Af hverju eru viðtölin tekin hérna úti. Ég er búinn að standa úti í 90 mínútur.“

Var Haraldur þá spurður hvort hann væri ekki sáttur við að vera tekin í viðtal úti í vindinum.

„Nei, ég er bara að bulla. Það er svo leiðinlegt að spila í svona vindi. Það hefði alveg mátt fresta fyrsta leiknum okkar í Grindavík. Eftir svona leik er maður fyrst svekktur að hafa komið aftur til Íslands. Að fá lægðirnar yfir sig þegar maður er að spila.“

Að lokum var Haraldur spurður hvort að Stjarnan ætti einhvern möguleika á titlinum eftir þessi úrslit.

„Það held ég ekki. Þeir eru að fara að spila núna korter yfir sjö og þeir hljóta að vera nokkuð peppaðir eftir þessi úrslit. Þeir vilja örugglega klára þetta á sínum heimavelli í kvöld. Við erum bara mjög svekktir með jafnteflið hérna í dag. Kannski ennþá svekktari þegar við sáum að KR gerðu jafntefli. Við hefðum getað tryggt evrópusætið hérna í dag.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira