Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur Ó. - Víkingur R. 1-3 | Reykvíkingarnir unnu víkingaslaginn

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Víkingurinn Alex Þór Hilmarsson.
Víkingurinn Alex Þór Hilmarsson. Vísir/Andri Marinó
Víkingur R. sótti dýrmæt þrjú stig til Ólafsvíkur í dag með góðum 3-1 sigri. Með sigrinum er liðið svo gott sem búið að tryggja veru sína í Pepsi deildinni næsta sumar en á sama tíma er Víkingur Ó. í miklum vandræðum.

Castillion kom Víkingi R. yfir eftir um hálftímaleik er hann komst innfyrir vörn Ólafsvíkinga og skoraði með laglegu skoti í fjærhornið.

Aðstæður voru erfiðar en mikil rigning var í dag og í gær á Ólafsvík og völlurinn rennblautur sem gerði mönnum erfitt fyrir.

Seinni hálfleikur fór mjög rólega af stað en eftir klukkutímaleik dró til tíðinda er Aleix Egea, varnarmaður Ólafsvíkinga, varð fyrir því óláni að setja boltann í sitt eigið mark. Staðan orðin 2-0 fyrir gestina frá Reykjavík.

En það leið varla mínúta áður en Ólafsvíkingar minnkuðu muninn er Pape skoraði eftir að skot Þorsteins Más fór í varnarmann og barst boltinn til Pape sem þakkaði pent fyrir sig með marki.

Víkingur Ó. náði þó ekki að bæta við mörkum en þess í stað fengu gestirnir vítaspyrnu þegar korter var til leiksloka en Castillion nýtti spyrnuna vel og setti Cristian Martinez  í marki Ólsara í rangt horn.

Lokatölur 3-1 sigur Víkings R. á heimamönnum í Víkingi Ó.

Af hverju vann Víkingur R.?

Gestirnir voru einfaldlega með betri lið í dag. Þeir sköpuðu sér fleiri færi og voru heilt yfir betri aðilinn í dag.

Aðstæður gerðu báðum liðum erfitt fyrir en helsti munurinn var kannski að frammi var Víkingur R. með Geoffrey Castillion á meðan Ólafsvíkingar söknuðu Guðmund Stein sárlega en fyrirliðinn og helsti markaskorari liðsins er meiddur.

Þar að auki vantaði marka mikilvæga leikmenn í lið Ólafsvíkur og því alltaf líklegra að Víkingur R. myndi fara með sigur á hólmi.

Bara vel gert hjá Loga og hans mönnum að landa sigrinum. Fallhættan er algjörlega úr sögunni á þeim bænum.

Hverjir stóðu upp úr?

Castillion skoraði tvö mörk fyrir Víking R. og var óheppinn eða hreinlega bara klaufi að næla sér ekki í þrennu. Þar að auki var samherji hans, Alex Freyr, mjög beittur alveg þangað til það kom að því að setja boltann í netið.

Pape Mamadou Faye átti ágætis leik fyrir Ólafsvík en það er erfitt að nefna mikið fleiri en veðrið bauð ekki upp á frábæra knattspyrnu. Þegar það er mikið um hálofta spyrnur er erfitt að standa upp úr nema þú sért sirka 2 metrar á hæð eins og Castillion.

Hvað gekk illa?

Það reyndist báðum liðum erfitt að spila í kvöld en boltinn átti það til að stoppa í blautu grasinu eða detta dauður niður í stað þess að skoppa.

En það verður erfitt fyrir Víking Ó. að kyngja þessu tapi enda voru úrslit gærdagsins þeim mjög hagstæð og erfitt að geta ekki fært sér það í nyt.

Á bekk Ólafsvíkur voru einungis tveir leikmenn sem höfðu komið inn á í sumar. Farid Zato kom inn á fyrir félagið í kvöld sem segir sitt enda hefur Zato ekki sparkað í bolta síðan um síðasta sumar.

Hvað gerist næst?

Víkingur Ó. fær FH í heimsókn og mætir síðan Skagamönnum í síðstu umferð en það er ljóst að þessir leikir eru ansi mikilvægir fyrir félagið sem situr sem stendur í fallsæti þegar einunigs tvær umferðir eru eftir.

Víkingur R. getur andað léttar þar sem fallhættan er ekki lengur inn í myndinni og fær Skagamenn í heimsókn í næstu umferð.

Logi: Hver hefur sinn djöful að draga

Logi Ólafsson, þjálfari Víkings R., var að vonum létt eftir að hans menn lönduðu dýrmætum sigri í Ólafsvík.

„Því verður ekki neitað. Þetta var erfiður leikur í erfiðum aðstæðum fyrir bæði lið.“

Víkingur R. fékk mark í andlitið strax eftir að liðið komst í 2-0 og einnig voru Ólafsvíkingar nálægt því að minnka muninn aftur strax í kjölfarið og þegar Víkingur R. komust í 3-1.

„Hver hefur sinn djöful að draga og það má kannski álykta að menn gleyma sér aðeins hvort sem það sé í fögnuðinum eða einhverju öðru. Þetta er auðvitað ekki meðvitað en eitthvað sem við verðum að vinna bug á.“

Viktor Bjarki haltraði af vellinum í byrjun seinni hálfleiks og segir Logi þá einungis geta beðið og séð hversu alvarleg þau meiðsli eru.

„Viktor er kominn aðeins til ára sinna og stutt síðan við spiluðum síðasta leik þannig við verðum bara að bíða og sjá og vona það besta.“

Bæði lið vildu fá vítaspyrnur í leiknum en þá sérstaklega gestirnir en í fyrri hálfleik var Davíð Örn felldur í teignum og virtist um borðleggjandi vítaspyrnu að ræða en engu að síður var ekki dæmt.

„Mér fannst það nokkuð áberandi þegar Davíð var felldur í teignum. Mér fannst það allavega vera víti.“

Hann segist hlakka til að mæta Skagamönnum í næstu umferð og er meðvitaður um að þeir eru enn að berjast fyrir lífi sínu í deildinni þrátt fyrir veika von.

„Þeir eiga veika von og á meðan þeir eiga hana þá verða þeir erfiðir viðureignar en því miður fyrir þá, þá komum við ekki til með að gefa neitt eftir.“

Ejub: Ég tók „sjens“

„Fyrir leik vorum við ekki í góðri stöðu og núna erum við í enn verri,“ sagði Ejub, þjálfari Víking Ó. eftir leikinn.

Ólafsvíkingar eru í erfiðri stöðu en liðið er í fallsæti og ekki með örlög sín í sínum höndum en nú þarf liðið að bíða og vona að Fjölnir missi stig í næstu leikjum.

Ólafsvíkingar vildu fá vítaspyrnu tvívegis í leiknum og vildi Ejub ekki dæma um hvort rétt hefði verið að sleppa dómunum tveimur en sagði að það hafi reynst erfitt fyrir Ólafsvíkinga að fá vítaspyrnur í sumar.

„Vill maður ekki alltaf fá vítaspyrnu? Það hefur reynst erfitt fyrir okkur að fá þær í sumar. Það verður allavega áhugavert að sjá þetta aftur í sjónvarpinu. Ég get  hinsvegar ekki dæmt um það núna.“

Athygli vakti að Farid Zato var í leikmannahóp Ólafsvíkinga en hann spilaði með liðinu síðasta sumar en hefur ekki spilað síðan þá.

„Hann æfði með okkur. Ég tók sjens. Tuttugu mínútur eftir og hann er stór strákur og aldrei að vita nema hann gæti unnið nokkra skallabolta fyrir okkur.“

Aðspurður hvort ekki hefði komið til greina að nota unga heimamenn sem sátu nokkrir á bekknum í dag gaf hann lítið fyrir það. Hann benti á að hann hefði notað þá en þar sem ekki fleiri en þrjár skiptingar væru leyfðar gæti hann ekki gert mikið betur.

Tveir heimamenn komu inn á þegar ein mínúta var kominn framyfir venjulegan leiktíma en Farid Zato kom inn þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka. En kemur Farid Zato til með að spila fleiri leiki í sumar en næsti leikur Víkings Ó. er gegn Íslandsmeisturum FH.

„Vonandi verða fleiri heilir. Þetta er bara næsti leikur. Við erum ekki í góðri stöðu sem stendur en reynum að undirbúa okkur fyrir næsta leik og það kemur bara í ljós hvernig það fer.“

Pape Mamadou Faye: Ætti að vera nóg til að fá víti

„Þetta er frekar svekkjandi og sérstaklega miðað við hvernig leikurinn spilaðist. 3-1 gefur ekki alveg rétta mynd af leiknum. Við verðum bara að halda áfram. Upp með haus og klára verkefnin sem eru eftir,“ sagði Pape í samtali við Vísi strax eftir leik.

Pape bað dómarann tvívegis um vítaspyrnu í leiknum en í hvorugt skiptið fékk hann ósk sína uppfyllta.

„Mér fannst varnarmaðurinn sparka aftan í hælinn minn. Það ætti að vera nóg til að dæma víti. Svo fékk Castillion boltann í hendina inn í teig og þar fengum við ekki neitt heldur. Svo er dæmt á okkur ódýrt víti að mínu mati. En dómarinn ræður og við verðum bara að lifa með því.“

Pape hefur ekki spilað margar 90 mínútur í sumar en Ejub hefur oft tekið hann útaf eftir um klukkutíma leik. Hann gerði það ekki í dag, aldrei þessu vant.

„Þetta er bara í annað skiptið í sumar sem ég spila 90 mínútur sem er skrýtið en ég er alltaf tilbúinn þegar kallið kemur.“

Geoffrey Castillion: Grautfúlt að skora ekki þrennu

Geoffrey Castillion átti frábæran leik í búningi Víkings R. í kvöld en hann skoraði tvö mörk í 3-1 sigri á Ólafsvíkingum.

„Já ég er mjög ánægður. Við erum komnir í góða stöðu til að halda okkur í deildinni fyrir næsta tímabil. Þetta var erfiður leikur í erfiðum aðstæðum en við stóðum okkur vel.“

Castillion komst nálægt því að skora sitt þriðja mark og þar með tryggja sér keppnisboltann en brást bogalistinn á lokamínútunum.

„Það var mjög fúlt. Ég var mjög fúll út í sjálfan mig yfir að klúðra því. Ég vil alltaf skora mörk og þegar maður á möguleika á að skora þrennu þá er auðvitað grautfúlt að klúðra því.“

Hann segist spenntur fyrir næsta leik sem er gegn Skagamönnum.

„Við eigum góða möguleika á þremur stigum og við viljum alltaf vinna. Við erum á heimavelli þannig ég er bjartsýnn.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira