Umfjöllun og viðtöl: Valur - Víkingur 25-21 | Meistararnir með fullt hús stiga

Sigmar Bjarni Sigurðarson​ skrifar
Anton Rúnarsson skoraði fimm mörk fyrir Val.
Anton Rúnarsson skoraði fimm mörk fyrir Val. Vísir/Eyþór
Valur sigraði Víking með fjórum mörkum í leik liðanna á Hlíðarenda í dag. Leikurinn endaði 25-21 og var þetta leikur í annari umferð Olís-deild karla.

Fyrri hálfleikur fór vel af stað fyrir gestina sem leiddu með tveimur mörkum eftir 8 mínútur. Þá kom góður kafli hjá Valsmönnum sem skoruðu fjögur mörk í röð og eftir 15 mínútna leik þá leiddu heimamenn með þremur mörkum. 

Leikurinn var síðan jafn alveg þangað til að Ýmir Örn Gíslason fékk tvær mínútur en lét síðan annan dómara leiksins heyra það og fékk aðrar tvær mínútur og voru Valsmenn því manni færri síðustu 4 mínúturnar. Það nýttu Víkingarnir sér vel og fóru inní hálfleikinn með tveggja marka forskot.

Seinni hálfleikur fór jafnt af stað, liðin skiptust á að skora og Víkingar héldu heimamönnum aðeins frá sér. Þegar tíu mínútur voru eftir var staðan jöfn en þá gáfu Valsmenn í og fóru að taka öll völd á vellinum og komust í þriggja marka forskot þegar um tvær mínútur voru eftir. Leikurinn endaði þannig að Valur sigraði 25-21. 

Afhverju vann Valur?

Valsmenn voru að spila góða vörn og voru mikið manni færri sem Víkingar náðu engan veginn að nýta sér og verða eflaust hundfúlir með það. Valsmenn skoruðu oft manni færri í sókn. Íslandsmeistararnir kláruðu svo síðustu 10 mínúturnar og sýndu mikil gæði á lokasprettinum bæði í vörn og sókn. 

Þessir stóðu upp úr: 

Magnús Óli leiddi sóknarleikinn og skoraði mikilvæg mörk. Einnig má nefna Vigni Stefáns sem nýtti sín færi mjög vel. Einar Baldvin stóð sig vel í markinu hjá Valsmönnum og varði nokkur mikilvæg skot á síðustu tíu mínútunum.

Í liði gestanna voru þeir Egidijus Mikalonis og Jón Hjálmarsson sprækastir báðir með 5 mörk. Einnig má nefna góða frammistöðu Birgis Más Birgissonar í fyrri hálfleik. 



Hvað gekk illa?

Sóknarleikur nýliðanna var ekki alveg nógu góður gegn sterkri vörn Valsara. Valsmenn voru líka oft manni færri sem að Víkingar náðu ekki að nýta sér það og voru að fá á sig mörk í yfirtölu. Víkingar leiddu í háflleik og voru mjög flottir í fyrri en tapa svo seinni hálfleiknum 15-9.

Hvað gerist næst?

Valur mætir hinum nýliðum deildarinnar, Fjölni í Grafarvoginum og eftir tvo sigurleiki eru þeir í flottu formi og líta vel út. Víkingar fara í heimsókn í Breiðholtið og mæta ÍR. Víkingar þurfa að fara bæta við stigum í pokann en það verður ekki auðvelt verk gegn ÍR.

Snorri Steinn: Fengum verðuga mótspyrnu

„Þeir áttu virkilega flottan leik og við fengum mjög verðuga mótspyrnu og þurftum virkilega að hafa fyrir þessum tveimur stigum. Ég er ánægður með að klára þetta, við vorum að glíma við allskonar mótlæti en leystum vel úr því og fengum tvö stig,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, eftir leikinn.

Snorri Steinn var ánægður með spilamennskuna og stigin tvö.

„Við vorum mikið manni færri en það kannski dregur ekki úr okkur tennurnar en við missum smá takt og takturinn í leiknum fór oft í dag. Við leystum þó vel úr því og í heildina var þetta baráttu leikur og ánægður með karakterinn sem að strákarnir sýndu og kláruðu þetta,“ sagði Snorri Steinn.

„Ég er ánægður með stigasöfnunina og oft ánægður með spilamennskuna en það er ljóst að við eigum mikið inni og fullt að hlutum sem við eigum að gera betur.“

Gunnar: Þetta var hörkuleikur.

„Mínir menn komu virkilega tilbúnir og vorum klárir í að gefa allt í þetta og spilum mjög góða vörn og agaðir í sóknarleiknum og það var synd að missa þetta svona aðeins í lokin og skrifast það kannski á einbeitingarleysi og reynsluleysi,“ sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari Víkings eftir leikinn.

Víkingur leiddi í hálfleik en misstu tökin í seinni hálfleik.

„Við leggjum upp seinni hálfleik alveg eins og þann fyrri en vorum að fá á okkur svolítið að hraðaupphlaupum í seinni þar sem að við erum ekki að vanda okkur nægilega vel og taka erfið færi,“ sagði Gunnar.

„Ef að Valsmenn fá þannig upp í hendurnar þá refsa þeir, en fyrst og fremst ánægður með leikinn okkar og menn eru að standa sig vel.“

Magnús Óli: Ég fíla mjög mikið að vera í Val

„Víkingur gáfu allt sem þeir gátu og við áttum í erfiðleikum í fyrri hálfleik með þá og þeir voru bara mjög góðir í dag og við erum ótrúlega sáttir með tvö stig,“ sagði Magnús Óli Magnússon leikmaður Vals.

Magnús var að finna sig vel í dag í sínum fyrsta heimaleik á Hlíðarenda.

„Mjög skemmtilegur heimaleikur, fín stemming í stúkunni og góður spirit í strákunum og við gáfum allt í þetta og það skilaði okkur tveimur stigum. Ég fíla mjög mikið að vera í val og þetta er bara frábært,“ sagði Magnús.

„Við vorum að fá heimskulegar 2 mínútur á köflum og vorum að pirra okkur á dómurunum en við leystum það ágætlega í dag.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira