Körfubolti

Stórleikur Shved dugði ekki gegn Serbum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serbinn  Vladimir Lucic fagnar í kvöld.
Serbinn Vladimir Lucic fagnar í kvöld. Vísir/Getty
Serbar tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitaleik Evrópumótsins í körfubolta þar sem þeir munu mæta Slóveníu á sunnudaginn.

Serbía vann átta stiga sigur á Rússlandi, 87-79, í seinni undanúrslitaleiknum eftir að hafa verið fjórtán stigum yfir í hálfleik, 48-34.

Rússar verða að sætta sig við það að mæta Spánverjum í bronsleiknum. Besti maður vallarins var þó Rússinn Alexey Shved sem skoraði 33 stig og gaf 5 stoðsendingar í leiknum.

Bogdan Bogdanović skoraði 24 stig fyrir Serbíu og risinn Boban Marjanović var með 18 stig á 21 mínútu.

Júgóslavar urðu á sínum tíma átta sinnum Evrópumeistarar en nú mætast tvær fyrrum þjóðir Júgóslavíu í úrslitaleiknum í fyrsta sinn.  

Það er jafnframt ljóst að það verður nýtt nafn skrifað á bikarinn því Slóvenar hafa aldrei áður spilað til úrslita og Serbar töpuðu sínum eina úrslitaleik til þessa fyrir átta árum.

Serbar unnu annan leikhlutann 23-14 og lögðu þá grunninn að sigrinum en serbneska liðið var fimm stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 25-20.

Rússar léku mun betur í seinni hálfleiknum og náðu að minnka muninn niður í tvö stig.

Nær komust þeir ekki og Serbum tókst að landa sigri og komast í úrslitaleikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×