Erlent

Milljón Flórídabúa enn án rafmagns eftir Irmu

Kjartan Kjartansson skrifar
Irma olli mikilli eyðileggingu á Florida Keys, láglendum eyjaklasa suðvestur af Flórídaskaga.
Irma olli mikilli eyðileggingu á Florida Keys, láglendum eyjaklasa suðvestur af Flórídaskaga. Vísir/AFP
Þó að nærri því vika sé liðin frá því að fellibylurinn Irma gekk yfir Flórída er um það bil 1,1 milljón manna enn á rafmagns í ríkinu. Íbúar í Florida Keys, svæðinu sem varð einn verst úti, fá að snúa heim til að meta tjónið nú um helgina.

Florida Keys-eyjarnar, undan suðvesturströnd Flórída, fengu að kenna á mestum krafti Irmu en hún var fjórða stigs fellibylur þegar hún gekk þar á land á sunnudagsmorgun fyrir viku.

Yfirvöld þar hafa hins vegar áhyggjur af því að frekara neyðarástand skapist þegar íbúar eyjanna komast að því að að ekkert eldsneyti, rafmagn, rennandi vatn eða önnur nauðsynleg þjónusta er þar fyrir hendi, að því er segir í frétt CNN.

„Mesta áhyggjuefnið er að fólk rjúki hingað niður eftir og geri sér þá grein fyrir því að það eigi ekkert heimili lengur og þurfi að leyta skjóls. Við erum ekki með neyðarskýli í augnablikinu. Eigum við að opna skýli? Hversu mörg eigum við að opna?“ segir Rick Ramsay, sýslumaður Monroe-sýslu sem Florida Keys tilheyra.

Rick Scott, ríkisstjóri Flórída, sagðist skilja ergelsi íbúa en varaði þá við því að snúa aftur heim áður en það telst vera öruggt.

„Þú vilt snúa aftur í rafmagn. Þú vilt koma aftur til holræsakerfis sem virkar. Þú vilt snúa aftur í vatnsveitu sem virkar. Þú vilt snúa aftur á stað þar sem þú getur fengið matinn sem þú þarft,“ sagði Scott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×