Innlent

Brynjar útilokar rannsókn þingnefndar á Bjarna og Sigríði

Kjartan Kjartansson skrifar
Brynjar gefur lítið fyrir vantraust Viðreisnar á formennsku hans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Brynjar gefur lítið fyrir vantraust Viðreisnar á formennsku hans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Vísir/Vilhelm
Viðreisn getur leitað til umboðsmanns Alþingis telji flokkurinn þörf á að rannsaka embættisfærslur forsætis- og dómsmálaráðherra. Þetta segir Brynjar Níelsson sem segir enga þörf á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd rannsaki málið eins og Viðreisn vill.

Ráðgjafaráð Viðreisnar samþykkti ályktun í dag sem fól meðal annars í sér að embættisfærslur Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, og Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, vegna málefna sem tengjast uppreist æru yrðu rannsakaðar fyrir kosningar.

Í samtali við Vísi sagði Þorsteinn Víglundsson, sem verið hefur félagsmálaráðherra, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætti að sjá um rannsóknina.

Vísaði hann þó til gagnrýni á störf Brynjar sem formaður nefndarinnar í tengslum við uppreist æru og sagði að annar nefndarmaður ætti að taka að sér formennsku. Nefndin fór yfir hvernig staðið væri að uppreist æru hjá dómsmálaráðuneytinu í sumar. Þar voru gögn sem tengdust uppreist æru Roberts Downey lögð fyrir en þingmenn meirihlutans vildu ekki kynna sér þau.

Þorsteinn Víglundsson segir að yfirlýsingar Brynjars um mál sem tengjast uppreist æru hafi ekki aukið traust til hans sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.Vísir/Ernir
Segir ályktun Viðreisnar vanhugsaða

Brynjar vísar þessari gagnrýni á bug í samtali við Vísi og segir enga þörf á rannsókn af þessu tagi.

„Það liggur alveg fyrir hver embættisfærslan var. Það þarf ekkert að rannsaka það nánar. Svo geta menn bara haft einhverja skoðun á því,“ segir Brynjar.

Þá bendir hann á að engin hefðbundin nefndarstörf verði fyrir kosningar. Þingnefndir muni aðeins fjalla um tiltekin mál ef samstaða næst um það.

„Þetta er allt vanhugsað í einhverjum æsingi. Ég held að þau ættu að setjast aðeins niður og hugsa málin betur í Viðreisn. Þau geta beint þessu til umboðsmanns [Alþingis] ef þau vilja,“ segir hann.

„Í mínum huga er þetta bara innihaldslaust raus í flokki sem er eiginlega með allt niðrum sig í þessu máli,“ segir Brynjar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×