Fastir pennar

Niðurfærsla æru

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Við skulum ekki hafa hátt,

hér er margt að ugga.

Eg hef heyrt í alla nátt

andardrátt á glugga.



Þetta er vísa frá 16. öld um nátttröll á sveimi, sögð eftir Þórð Magnússon á Strjúgi en er í rauninni úr þjóðardjúpinu enda eru ljóðin sálarpækill sem geymir tilfinningar fólks um aldir. Í vísunni er ótti aldanna. Þar endurspeglast hugarfar hræddrar og hrelldrar þjóðar, fólks sem er varnarlaust gagnvart ofbeldi. Bælum okkur, segir þessi vísa: felum okkur, sussu-suss, látum fara lítið fyrir okkur og óvætturinn fyrir utan sér okkur þá kannski ekki.

Byltingin

Þetta hefur valdalausu alþýðufólki verið innrætt hér öld af öld, konum og börnum – að halda niðri sér andanum þar til hættan er liðin hjá. Og að sjálfur geti maður ekkert gert til að verjast ógnvaldinum, best að bíða bara og láta ekki taka eftir sér. Eina vörnin að vera ósýnilegur.

Þar til nú. Hægt og bítandi höfum við upplifað byltingu á undanförnum árum – fólk kemur fram opinberlega og segir frá ofbeldi sem það hefur orðið fyrir, í æsku eða á fullorðinsárum. Í stað hvatningar til að fela sig er ljósinu nú beint að óbótamönnunum. Níðingar og nauðgarar standa allt í einu baðaðir ljósi og skömm og ekki einu sinni sjálft Flokksvaldið fær lengur verndað þá fyrir afleiðingum gjörða sinna.

Og skyndilega er kynferðis­ofbeldi ekki lengur eins og hver önnur hvimleið staðreynd lífsins sem við verðum að láta okkur hafa – heldur ólíðandi glæpur. Allt í einu eru kynferðisglæpamenn ekki lengur ólánsgrey sem hafa lent í þessari ógæfu – heldur skal kynferðisglæpamaðurinn hvers manns níðingur heita, eins og það er orðað í gömlum textum. Bókstaflega.

Hægt og bítandi hefur þessi bylting breiðst út um samfélagið og nú hefur það síðast gerst að hún hefur velt ríkisstjórn úr sessi; og fengið sín kjörorð eins og allar byltingar þurfa að hafa: Höfum hátt.

Í fararbroddi hefur staðið fjölskylda Nínu Rúnar Bergsdóttur; systur hennar og foreldrar, og þau hafa spurt þessarar spurningar sem er jafn sjálfsögð og hún er sjaldgæf: Af hverju?

Af hverju fær barnaníðingur endurnýjuð lögmannsréttindi? Af hverju fær barnaníðingur uppreist æru? Af því að það er alltaf gert? Rútína? Bara formsatriði? Af hverju? Og af hverju skrifa „valinkunnir menn“ umsagnir um að barnaníðingar eigi skilið að fá „uppreist æru“? Af hverju eru „valinkunnir menn“ í felum – falinkunnir? Og hvað þýðir þetta fornfálega orðalag eiginlega, „uppreist æru“? Sæmd?

Falinkunnir menn

Maður sér ýmsa klóra sér í hausnum yfir stjórnarslitunum. Ýmsir tala eins og atburðarásin sé óskiljanleg, snúist um smámál. Þeir virðast enn ekki skilja hversu stórt þetta er.

Þetta átti sér líka aðdraganda. Áður hafði Sigríður Andersen reynt mjög á þolrifin hjá samstarfsflokkum sínum með verklagi sínu við skipan dómara við Landsrétt og rétt fyrir stjórnarslitin hafði hún gengið fram í því að vísa úr landi tveimur barnungum stúlkum, svo að almenna hneykslun og undrun vakti.

Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að umbera mikið hjá fólki sem maður er að reyna að vinna með. Og þolinmæðina þraut þegar kom í ljós að Sigríður hafði í júlímánuði upplýst Bjarna Benediktsson um það að faðir hans skrifaði meðmæli með því að dæmdur barnaníðingur fengi „uppreist æru“, en Sjálfstæðismenn höfðu að öðru leyti sveipað þessi meðmæli óskiljanlegri leynd, í orði kveðnu til að vernda brotaþola níðinganna, jafn glórulaust og það hljómar, en í raun vildu þeir fela nöfnin. Hvers vegna í ósköpunum ætti að ríkja leynd um það, þegar valinkunnir menn skrifa meðmæli með því að glæpamenn skuli fá endurheimt gott mannorð? Sé maður að leggja nafn sitt við eitthvað – þá getur maður ekki látið það nafn vera falið.

Málið snýst um vandaða og opna stjórnsýslu sem starfar á gagnsæjan hátt í þjónustu almennings en ekki til að vernda útvalda og veltengda menn. Meðal þess sem heyrðist úr Dómsmálaráðuneyti sem rök fyrir nafnleynd mannorðsábekinganna var „áhugi fjölmiðla“. En sýni fjölmiðla áhuga á að vita eitthvað á leyndin ekki að vera sjálfkrafa viðbragð heldur einmitt löngunin til að upplýsa. Það er vitneskjan og upplýsingin sem hjálpar okkur til að bæta samfélagið. Hér er margt að ugga, en ekki upplýsingarnar, ekki dagsljósið – nema maður sé nátttröll.






×