Lífið

Jarvis Cocker kemur fram á hátíð Sigur Rósar í Hörpu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Fjölmargir þekktir listamenn koma fram.
Fjölmargir þekktir listamenn koma fram.
Jarvis Cocker, Kevin Shields, Stars of the Lid, Dan Deacon and Julianna Barwick eru meðal þeirra sem koma fram í Hörpu í desember á listahátíðinni Norður og Niður. 

Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að alvarlegt mál hafi komið upp vegna fyrirhugaðrar tónleikaraðar hljómsveitarinnar Sigur Rósar í Hörpu þar sem tugir milljóna úr miðasölu tónleikanna eru horfnir. 

Sveitin Sigur Rós sendi frá sér tilkynningu um fyrstu listamennina sem staðfestir hafa verið á Norður og niður hátíðinni í Hörpu. Miðasala á hátíðina hefst fimmtudaginn 28. september á nordurognidur.is

Söngvari bresku hljómsveitarinnar Pulp, Jarvis Cocker, er meðal fyrstu listamanna sem tilkynntir eru á hátíðina en þar má einnig finna Kevin Shields úr My Bloody Valentine, sem kemur fram í fyrsta sinn hér á landi á hátíðinni. Hið goðsagnakennda dúó Stars of the Lid mun koma hingað frá Bandaríkjunum og Juliana Barwick snýr aftur til landsins eftir að hafa tekið hér upp plötu sína Nepenthe frá 2013. Íslandsvinurinn Dan Deacon kemur einnig fram á hátíðinni.

Að auki munu upprennandi íslenskir listamenn koma fram og má þar nefna hljómsveitina Hugar og nýtt verkefni Jófríðar, JFDR. Sin Fang, Sóley og Örvar Smárason munu einnig í fyrsta sinn flytja saman tónlist frá glænýju samstarfsverkefni þeirra. Öll þessi atriði eiga það sameiginlegt að tengjast meðlimum Sigur Rósar á einn eða annan hátt. Fleiri atriði verða tilkynnt á næstu vikum.

Um er að ræða veigamikla listahátíð sem Sigur Rós stendur fyrir frá 27. til 30. desember þar sem vinir og samverkafólk hljómsveitarinnar munu koma fram í öllum mögulegum og ómögulegum plássum sem finna má í Hörpu.​ Forsala Senu Live hefst miðvikudaginn 27. september kl. 10:00. Takmarkað magn passa er í boði og forsölunni lýkur í síðasta lagi kl. 22:00 sama dag.


Tengdar fréttir

Sakna tuga milljóna úr miðasölu hjá Sigur Rós

Ríflega 30 milljónir króna af miðasölu tónleikaraðar Sigur Rósar í Hörpu í desember eru horfnar. Ábyrgðarmaður tónleikanna fékk fyrirframgreiðslu hjá Hörpu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×