Innlent

Kosningar setja strik í reikninginn fyrir Framfarafélag Sigmundar Davíðs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Vísir/Eyþór
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, stofnandi Framfarafélagsins, segir að stefnt hafi verið að veglegri dagskrá á vegum félagsins í haust. Boðaðar kosningar munu þó setja strik í reikninginn.

„Nú erum við búin að vera í sumar að undirbúa heilmikla haustdagskrá. Ætluðum að taka þetta allt saman með trompi og bjóða upp á skemmtilega og fræðandi fundi um allt land. Ný vefsíða tilbúin og allar græjur en svo held ég að það sé eiginlega óhjákvæmilegt að þetta setji aðeins strik í reikninginn þegar menn verða uppteknir við kosningabaráttu,“ sagði Sigmundur Davíð í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Athygli vakti þegar Sigmundur Davíð boðaði stofnun félagsins skömmu eftir miðstjórnarfund Framsóknarflokksins þar sem meðal annars var ákveðið að flýta flokksþingi, flokksþingi þar sem Sigmundur Davíð tapaði formannsslagi gegn Sigurð Inga Jóhannsson, núverandi formanni Framsóknarflokksins.

Fyrir helgi staðfesti Sigmundur Davíð að hann myndi bjóða sig fram í alþingiskosningunum sem framundan eru. Hann segir að Framsóknarflokkurinn sé þegar farinn að undirbúa kosningabaráttuna en hvernig metur hann stöðu sína innan flokksins?

„Ég meta hana mjög góða í mínu kjördæmi og reyndar í flokknum almennt. Reyndar heyrist mér að gamlir kunningjar séu aðeins farnir af stað aftur,“ sagði Sigmundur Davíð.

Tekist var á flokksþingi Framsóknarflokksins á síðasta ári.Vísir/Anton
Var hann þá spurður um hverja hann væri að tala.

„Þeir sem að þeir voru virkir í því að koma á allri þessari atburðarás í kringum flokksþingið hjá okkur og reyna sækja að mér í kjördæminu og fleirum,“ sagði Sigmundur Davíð. Var hann þá spurður að því hvort að þessir menn hefðu verið í sama liði og hann á þingi. Svaraði Sigmundur Davíð því játandi.

Hann gerir ráð fyrir því að Framsóknarflokkurinn haldi flokksþing til að stilla saman strengina fyrir kosningarnar og hann telur möguleika flokksins góða.

„Ég held að Framsókn ætti að geta átt fína möguleika. Auðvitað finnst manni grátlegt að flokkurinn sé ekki í þeirri stöðu sem hann gæti verið í til að stíga inn í þetta ástand sem flokkur stöðugleika sem hefði staðið allt af sér,“ sagði Sigmundur Davíð.

Hlusta má á allt viðtalið í heild sinni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×