Íslenski boltinn

Ejub: Erfitt fyrir okkur að fá vítaspyrnur

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Ejub Purisevic.
Ejub Purisevic. vísir/Stefán
„Fyrir leik vorum við ekki í góðri stöðu og núna erum við í enn verri,“ sagði Ejub Purisevic, þjálfari Víkings frá Ólafsvík, eftir tapleikinn gegn Reykjavíkur Víkingum.

Ólafsvíkingar eru í erfiðri stöðu en liðið er í fallsæti og ekki með örlög sín í sínum höndum en nú þarf liðið að bíða og vona að Fjölnir missi stig í næstu leikjum.

Ólafsvíkingar vildu fá vítaspyrnu tvívegis í leiknum og vildi Ejub ekki dæma um hvort rétt hefði verið að sleppa dómunum tveimur en sagði að það hafi reynst erfitt fyrir Ólafsvíkinga að fá vítaspyrnur í sumar.

„Vill maður ekki alltaf fá vítaspyrnu? Það hefur reynst erfitt fyrir okkur að fá þær í sumar. Það verður allavega áhugavert að sjá þetta aftur í sjónvarpinu. Ég get  hins vegar ekki dæmt um það núna.“

Athygli vakti að Farid Zato var í leikmannahóp Ólafsvíkinga en hann spilaði með liðinu síðasta sumar en hefur ekki spilað síðan þá.

„Hann æfði með okkur. Ég tók sjens. Tuttugu mínútur eftir og hann er stór strákur og aldrei að vita nema hann gæti unnið nokkra skallabolta fyrir okkur.“

Aðspurður hvort ekki hefði komið til greina að nota unga heimamenn sem sátu nokkrir á bekknum í dag gaf hann lítið fyrir það. Hann benti á að hann hefði notað þá en þar sem ekki fleiri en þrjár skiptingar væru leyfðar gæti hann ekki gert mikið betur.

Tveir heimamenn komu inn á þegar ein mínúta var kominn fram yfir venjulegan leiktíma en Farid Zato kom inn þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka. En kemur Farid Zato til með að spila fleiri leiki í sumar en næsti leikur Víkings Ó. er gegn Íslandsmeisturum FH?

„Vonandi verða fleiri heilir. Þetta er bara næsti leikur. Við erum ekki í góðri stöðu sem stendur en reynum að undirbúa okkur fyrir næsta leik og það kemur bara í ljós hvernig það fer.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×