Fótbolti

Elín Metta: Vil alltaf meira

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Elín Metta er komin með sjö mörk fyrir Ísland
Elín Metta er komin með sjö mörk fyrir Ísland vísir/eyþór
Elín Metta Jensen fékk sæti í byrjunarliði íslenska landsliðsins í dag þegar liðið tók á móti Færeyjum á Laugardalsvelli í undankeppni Heimsmeistarmótsins 2019. Nýtti hún tækifærið vel, var komin með tvö mörk og stoðsendingu eftir hálftíma leik.

„Þetta byrjaði vel, við vorum fókuseraðar frá byrjun og það skilaði sér alveg í fyrri hálfleik,“ sagði Elín Metta.

Henni var skipt út af á 79. mínútu og sagðist hafa verið smá svekkt yfir því að geta ekki klárað þrennuna.

„Jú, mig kitlar alveg að ná að skora, en það komu ferskir fætur inn á og við náðum að setja mörk í lokin, svo það var örugglega góð ákvörðun hjá þjálfaranum að setja ferskar fætur inn á í framlínuna.“

Leiknum lauk með 8-0 sigri Íslands, sem var í sókn svo gott sem allan leikinn. Hvað fannst Elínu Mettu um frammistöðu liðsins í dag?

„Mér fannst hún bara nokkuð solid. Við héldum skipulagi og það sem lagt var upp með og vorum þolinmóðar. Ég er bara ánægð með liðið mitt í dag.“

Færeyska liðið er að taka þátt í sinni fyrstu undankeppni stórmóts og fóru íslensku stelpurnar illa með fjölmörg færi í leiknum.

„Það er alveg möguleiki á því að við hefðum getað skorað fleiri, en mér finnst átta alveg ágætt. En maður vill alltaf meira og það eru alveg hlutir sem við getum lagað í okkar leik, það er alveg klárt,“ sagði Elín Metta Jensen.


Tengdar fréttir

Sara Björk: Þurfum að vera gráðugari

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, var að vonum ánægð með frammistöðu liðsins í 8-0 sigri á Færeyjum í undankeppni Heimsmeistaramótsins í Frakklandi 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×