Erlent

Maðurinn sem bjargaði heiminum frá kjarnorkustríði látinn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Stanislav Petrov var 77 ára þegar hann lést.
Stanislav Petrov var 77 ára þegar hann lést. Vísir/Getty
Stanislav Petrov, liðsforingi í sovéska hernum, sem sagður er hafa bjargað heiminum frá kjarnorkustríði á níunda áratug síðustu aldar er látinn, 77 ára að aldri. Guardian greinir frá.

Petrov var á vakt í leynilegri stjórnstöð sovéska hersins þann 26. september 1983 þegar eftirlitstæki gáfu til kynna að Bandaríkin hefðu skotið fimm flugskeytum í átt að Sovétríkjunum.

Kalda stríðið á milli ríkjanna var í algleymingi á þessum tíma og hefði Petrov, samkvæmt reglum sovéska hersins, átt að láta yfirmenn sína vita og svara árásinni með því að senda flugskeyti af stað til Bandaríkjanna.

Petrov var 44 ára þegar atvikið átti sér stað hunsaði viðvörunina tækjunum. Hafði hann einfaldlega á tilfinningunni að eitthvað væri að tækjunum og að eiginleg árás væri ekki að eiga sér stað.

Í stað þess að fyrirskipa um árás tilkynnti hann um bilun í kerfinu. Hann segir þó að hann hafi ekki getað verið viss um að árás væri ekki yfirvofandi.

„23 mínútum seinna áttaði ég mig á því að ekkert hafði gerst. Ef þetta hefði verið alvöru árás hefði ég vitað af því. Það var svo mikill léttir,“ sagði hann við BBC árið 2013.

Gjörðir Petrov urðu ekki kunngur alheiminum fyrr en árið 1998 þegar hershöfðinginn Yuri Votintsev skrifaði um þær í endurminningum sínum.

Petrov varð í kjölfarið heimsfrægur. Hann lést þann 19. maí í úthverfi Moskvu þar sem hann bjó einn en lát hans var ekki tilkynnt fyrr en nú Hann lætur eftir sig son og dóttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×