Viðskipti innlent

Launin reyndust tæp hálf milljón á mánuði

Óvíst er hvenær Sjanghæ opnar dyr sínar á nýjan leik.
Óvíst er hvenær Sjanghæ opnar dyr sínar á nýjan leik. vísir/svenni
Veitingastaðurinn Sjanghæ hefur ekki verið opnaður að nýju eftir umfjöllun Ríkis­útvarpsins um að grunur hafi leikið á mansali á staðnum. Eftir rannsókn stéttarfélagsins Einingar Iðju á launaskýrslum kom í ljós að ekki var fótur fyrir þeim sögusögnum. Eigendur staðarins íhuga alvarlega lagalegu stöðu sína.

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá því þann 30. ágúst síðastliðinn að grunur léki á mansali á veitingastaðnum og að kokkar fengju greiddar um 30 þúsund krónur í mánaðarlaun. Reyndin var síðan allt önnur og voru laun kokkanna, sem komu frá Kína, 465 þúsund krónur á mánuði samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Þau laun eru rétt um eitt hundrað þúsund krónum hærri en lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningum.

Óvíst er hvenær Sjanghæ opnar dyr sínar á nýjan leik. Fréttablaðið/Sveinn
„Ég get staðfest það að veitingastaðurinn Sjanghæ á Akureyri hefur verið lokaður síðan fjölmiðlaumfjöllun um staðinn hófst,“ segir Jóhannes Már Sigurðarson, lögmaður veitingastaðarins.

Það var ekki ætlunin í upphafi að loka staðnum strax eftir fjölmiðlaumfjöllunina. Hún hafi samt sem áður valdið því að fáir viðskiptavinir komu á staðinn. „Fljótlega varð ljóst að hjá því varð ekki komist að loka,“ bætir Jóhannes Már við.

Óvíst er hvenær veitingastaðurinn verður opnaður aftur. Þá mun væntanlega koma í ljós hver langtímaáhrif umfjöllunar um staðinn mun hafa á reksturinn að mati Jóhannesar. Nú sé hann að fara yfir málið með eigendunum og á næstu dögum verður tekin ákvörðun um það hvort dómsmál verði höfðað.

„Það kom ekki stakur viðskiptavinur inn á staðinn eftir að fyrsta fréttin af málinu fór í loftið, og birgjar farnir að sækja tæki sem þeir höfðu lánað inn á veitingastaðinn. Þau viðbrögð verður að telja fullkomlega eðlileg, þegar um alvarlegar ásakanir um refsiverða háttsemi er að ræða. Eigandi veitingastaðarins var í fréttum grunaður um brot sem varðar allt að 12 ára fangelsi,“ segir Jóhannes Már. 

Rætt var við Jóhannes Má í Bítinu í morgun.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×