Innlent

Vilja stöðva sjálfvígshrinuna meðal íslenskra rokkara

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá þungarokkshátíðinni Eistnaflugi á Neskaupsstað. Myndi tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Frá þungarokkshátíðinni Eistnaflugi á Neskaupsstað. Myndi tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Freyja Gylfadóttir
Hið minnsta fjórir ungir karlmenn, sem allir tengdust íslensku þungarokki, hafa svipt sig lífi undanfarna mánuði. Sjálfsvígin hafa legið þungt á aðstandendum rokksenunnar sem blása til minningar- og hugvekjutónleika þann 5. október á Gauknum í Reykjavík.

Þetta verða þó engir venjulegir fimmtudagstónleikar, eins og forsprakkarnir Bylgja Guðjónsdótir og Elín Jósepsdóttir lýstu í samtali við Harmageddon. Flutt verða erindi þar sem fólk verður vakið til umhugsunar og mun sálfræðingur leiða umræðuna. Þá verður bent á úrræði sem gagnast þeim sem gætu verið í sömu sporum.

Bylgja og Elín líta til bandarísks úrræðis sem þær vilja innleiða á Íslandi. Þær segja það hafa gefið góða raun en voru ekki í aðstöðu til að ræða það nánar. „Við erum í rauninni að taka fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni og geðheilbrigðiskerfinu af því að þetta er svo brotið. Þetta stendur á brauðfótum eins og er.“

Tónleikarnir verða sem fyrr segir á Gauknum og lýsa þær Bylgja og Elín því að þeim hafi verið þakkað fyrir af eigendum staðarins er þær báru upp erindi sitt. Eigendurnir höfðu ekki farið varhluta af áföllunum sem dunið hafa á rokkssenunni síðustu mánuði. Mennirnir fjórir voru ýmist hljómsveitarmeðlimir eða áhangendur hljómsveita.

Þær eru þó ekki sannfærðar um það að tregða til að tala um tilfinningar sínar sé bundin við þungarokkara. „Karlmenn yfirhöfuð hafa það svolítið yfir sér að mega ekki tala um tilfinningar og að þeir verði að vera karlmenn,“ segja þær og bæta við að nauðsynlegt sé að losna við skaðlegar hugmyndir um karlmennsku.

Spjall þeirra Bylgju og Elínar við Frosta Logason má heyra í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×