Erlent

Betrumbæta eldflaugavarnir Japan

Samúel Karl Ólason skrifar
Japan á 34 slík kerfi en flestum þeirra hefur verið komið fyrir í kringum Tokyo.
Japan á 34 slík kerfi en flestum þeirra hefur verið komið fyrir í kringum Tokyo. Vísir/AFP
Yfirvöld í Japan hafa nú komið fyrir færanlegum eldflaugavörnum á Hokkaido-eyju. Það var gert eftir að Norður-Kórea skaut tveimur eldflaugum yfir eyjuna á innan við mánuði. Itsunori Onodera, varnarmálaráðherra Japan, segir að um varúðarráðstöfun sé að ræða sem gerir Japönum kleift að bregðast við neyðartilfellum.

Um er að ræða svokallað PAC-3 eldflaugavarnarkerfi sem hannað er til að skjóta eldflaugar niður í um 20 kílómetra fjarlægð. Japan á 34 slík kerfi en flestum þeirra hefur verið komið fyrir í kringum Tokyo. Fjögur þeirra voru þó flutt til suðurhluta Japan eftir að Norður-Kórea hótaði að skjóta eldflaugum að Gvam, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.



Eldflaugavarnarkerfi Japan er í raun í tveimur liðum. Fyrsti liðurinn snýr að svokölluðum Aegis-skipum sem ætlað er að skjóta niður eldflaugar í miðju flugi. PAC-3 kerfinu er svo ætlað að skjóta þær flaugar niður sem komast í gegnum varnir Aegis-skipanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×