Erlent

María búin að endurheimta fyrri styrk

Kjartan Kjartansson skrifar
María hefur valdið flóðum á franska yfirráðasvæðinu Gvadelúpeyjum í Karíbahafi.
María hefur valdið flóðum á franska yfirráðasvæðinu Gvadelúpeyjum í Karíbahafi. Vísir/AFP
Fellibyljastofnun Bandaríkjanna segir að fellibylurinn María hafi aftur náð fyrri styrk eftir að hún gekk yfir eyjuna Dóminíku í nótt og olli þar gríðarlegri eyðileggingu.

Í frétt CNN-fréttastöðvarinnar kemur fram að veðurfræðingar búist við því að María verði fjórða eða fimmta stigs fellibylur þegar hún nálgast Púertó Ríkó og Jómfrúareyjar.

María er nú á ferð um norðaustanvert Karíbahafi og nær vindrhraði hennar um 71 m/s. Búist er við því að hún nálgist Jómfrúareyjar og Púertó Ríkó í kvöld og á morgun. Þá verði hún gríðarlega hættulegur fjórða eða fimmta stigs fellibylur.

Varað er við lífshættulegum skyndiflóðum og aurskriðum af völdum úrhellis sem fylgir Maríu á Hléborðseyjum, Púertó Ríkó, og Bresku og Bandarísku Jómfrúareyjum.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á Púertó Ríkó. Fjórða stigs fellibylur hefur ekki gengið á land þar í 85 ár.

Fellibylsviðvörun er í gildi á Gvadelúpeyjum, Dóminíku, St. Kitts og Nevis, Montserrat, Jómfrúareyjum, Púertó Ríkó, Kúlebra og Víkes.

Rétt er nú tekið að birta af degi á Dóminíku og tjónið af völdum Maríu að koma í ljós. Vísbendingar eru þó um að mikil eyðilegging hafi orðið þar. Þannig blés þakið af setri forsætisráðherra landsins.


Tengdar fréttir

María ógnar fórnarlömbum Irmu

Fellibylurinn María hefur náð styrk fjórða stigs fellibyls. Stefnir María nú á eyjur í Karíba-hafinu sem sumar hverjar urðu illa úti eftir að fellibylurinn Irma gekk þar á land fyrir skömmu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×