Erlent

Trump harðorður í garð Norður-Kóreu og Íran

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. Vísir/AFP
„Við munum eiga þann eina kost að gereyða Norður-Kóreu. Eldflaugamaðurinn (e. Rocketman) er í sjálfsmorðshugleiðingum fyrir sig og ríkisstjórn sína.“ Þetta sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, í fyrstu ræðu sinni á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í dag þar sem hann veittist harkalega að stjórnvöldum Norður-Kóreu, Íran og Venesúela.

Í ræðu sinni sagði Trump að einstök ríki sem jafnvel væru aðildarríki Sameinuðu þjóðanna styddu við hryðjuverkasamtök og ógnuðu heiminum með gereyðingarvopnum. Þar vísaði hann til Íran og Norður-Kóreu.

Tiltölulega snemma í ræðu sinni sagði Trump að nærri því 700 milljörðum dala yrði varið í hernaðarmál á næstu árum. „Her okkar verður sterkari en hann hefur nokkurn tímann verið.“

Hann sagði að í stað þess að nýta auðlindir sínar til að bæta líf þegna sinna hefði ríkisstjórn Íran þess í stað varið þeim í að styðja við bakið á hryðjuverkasamtökum um heiminn og í að koma upp kjarnorkuvopnum.

Trump sagði kjarnorkusamkomulag Bandaríkjanna og annarra við Íran vera versta samning sem Bandaríkin hefðu nokkurn tímann komið að og gaf í skyn að hann myndi slíta samkomulaginu. Þá sagði hann samkomulagið vera skömmustulegt fyrir Bandaríkin.

Trump sagði enga ríkisstjórn hafa sýnt heiminum og eigin þegnum minni virðingu en hin óforskammaða ríkisstjórn Norður-Kóreu. Nefndi hann dauða ungs bandarísks manns sem fór í dá í fangelsi þar í landi. Hann nefndi einnig dauða Kim Jong-nam, bróður Kim Jong-un einræðisherra Norður-Kóreu. Hann var myrtur með VX-taugaeitri, sem skilgreint er sem gereyðingarvopn, á flugvelli í Kuala Lumpur.

Forsetinn nefndi einnig að þrettán ára stúlku hefði verið rænt í Japan og hún flutt til Norður-Kóreu. Þar hefði hún verið neydd til að þjálfa njósnara Norður-Kóreu í að tala japönsku.

Þá sagði Trump að það væri óásættanlegt að önnur ríki stæðu í viðskiptum við Norður-Kóreu og kallaði eftir því að ríkið yrði alfarið einangrað.

Vill stjórnarskipti í Venesúela

Trump fjallaði einnig um Venesúela og sagði að þörf væri á stjórnarskiptum þar. Ríkisstjórn Nicolas Maduro hefði lagt þetta ríka land í rúst og nú væri ríkisstjórnin að berjast gegn eigin þegnum.

„Við viljum hjálpa þeim að ná lýðræði sínu aftur,“ sagði Trump.



Ræða Trump í heild sinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×