Lífið

Lífinu fagnað á Dauðakaffi

Sólveig Gísladóttir skrifar
Guðríður mætir reglulega á Dauðakaffi og segist læra eitthvað nýtt í hvert sinn, sér í lagi um eigin viðhorf til dauða og lífs.
Guðríður mætir reglulega á Dauðakaffi og segist læra eitthvað nýtt í hvert sinn, sér í lagi um eigin viðhorf til dauða og lífs. Mynd/Stefán
Guðríður starfar daglega í nánd við dauðann en hún er hjúkrunarfræðingur á hjartadeild Landspítalans. „Það er mikilvægt í vinnu eins og minni að maður ígrundi vel hvaða skoðanir maður hefur á dauðanum,“ segir Guðríður.

Meginástæða þess að Guðríður fékk áhuga á að koma dauðanum inn í daglegt tal var vinna hennar með syrgjendum. „Í þessu verkefni hitti ég fólk tveimur mánuðum eftir lát ástvinar. Þá sá ég hvað það hafði mikil áhrif á úrvinnslu þessa fólks á missinum ef það hafði fengið einhvern aðdraganda að andlátinu. Við tölum um að eiga „Tíma“ með stóru T með ástvini áður en hann deyr. Það virðist afar mikilvægt fyrir fólk að fá að kveðja, ná að segja það sem það langar að segja og fá þannig tækifæri til að byrja sorgarferlið fyrir andlát. Því fólki virðist vegna betur en þeim sem missa ættingja eða ástvin skyndilega,“ útskýrir Guðríður en þessi „Tími“ getur verið allt frá sólarhring við sjúkrabeð einstaklings í öndunarvél og upp í marga daga eða vikur. „Lengd tímans skiptir ekki öllu heldur tækifærið til að kveðja.“

Guðríður segist hafa áttað sig á að þessi „Tími“ geti í raun spannað allt lífið en fólk átti sig ekki á því nema reikna með dauðanum. „Það að taka dauðanum sem gefnum hlut og tala opið um hann fær mann til að njóta lífsins betur. Það setur mann betur inn í núvitundina að vita að maður er ekki eilífur,“ segir Guðríður og líkir þessu við sumarblómin. „Maður nýtur þess enn betur að sjá blómin koma upp á vorin og blómstra á sumrin því maður veit að þau munu fölna á haustin,“ segir Guðríður og bendir á að Dauðakaffið sé í raun ætlað til að fá fólk til að opna umræðuna um dauðann og læra þannig að njóta lífsins betur.

Dauðakaffi hafa verið haldin reglulega á Café Meskí. „Mætingin er misjöfn, allt frá því að setið er á einu borði upp í tíu,“ segir Guðríður en fólk á hverju borði ræðir dauðann út frá áhuga einstaklinganna sem þar sitja. „Ég hef sjálf mætt nokkrum sinnum og er alltaf að læra eitthvað nýtt, sér í lagi um sjálfa mig og mín eigin viðhorf til dauða og lífs.“

Hópurinn sem mætir er fjölbreyttur í aldri og viðhorfum. „Hingað hefur komið fólk frá tvítugu upp í áttrætt. Fólk sem er forvitið og annað fólk sem fagnar tækifærinu til að fá að ræða dauðann þar sem málefnið hefur verið tabú í því umhverfi sem það kemur úr,“ segir Guðríður en umræðuefnin eru æði mörg. „Fyrir utan heimspekilegar umræður um lífið eftir dauðann er fólk að velta fyrir sér hvað verði um ástvini sem sitji eftir, hvað gerist ef einhver nákominn deyr og pælir í praktískum atriðum á borð við hvað verði um líkið þegar einhver deyr á spítala,“ segir Guðríður og bætir við að Dauðakaffið sé alls ekki dauðyflisleg samkunda. „Nei, hér er mikið hlegið.“

Næsta Dauðakaffi verður haldið í hliðarherbergi á Café Meskí fimmtudaginn 21. september klukkan 20 og stendur til klukkan 21.30. Aðgangur ókeypis. Nánari upplýsingar á Facebook undir Dauðakaffi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×