Innlent

Engin niðurstaða um þinglok í sjónmáli

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Ekki tókst að ná samkomulagi milli forystufólks flokkanna um hvaða mál eigi að afgreiða fyrir kosningar á fundum þeirra með forseta Alþingis í dag. Áfram verður reynt að ná saman um málin á morgun en engir þingfundir fara fram fyrr en samkomulag um málaskrána liggur fyrir.

Þrátt fyrir að vera tiltölulega langur var dagurinn því tíðindalítill á Alþingi. Klukkan eitt eftir hádegi hófst fundur þingflokksformanna með forseta Alþingis. Þar voru fyrst og fremst ræddar mögulegar breytingar á lögum um uppreist æru og samhliða breytingar á lögmannalögum. Viðmælendur fréttastofu sögðu almenna sátt ríkja um að gera þyrfti einhverjar breytingar í málaflokknum fyrir þinglok, þó einhver ágreiningur væri um hve langt væri unnt að ganga í þeim efnum á þeim skamma tíma sem er til stefnu. 

Strax að loknum fundi þingflokksformanna funduðu formenn flokkanna með forseta Alþingis annan daginn í röð. Á fundinum var reynt að komast nær einhvers konar lendingu um þinglok, en sérstaklega var horft til mögulegra breytinga á stjórnarskrá. Minni samstaða ríkti um það mál og var ekki einhugur um að gera breytingar á stjórnarskrá svo skömmu fyrir kosningar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×