Skoðun

Hagsmunagæsla í miðbænum. Hver á Víkurgarð?

Hjörleifur Stefánsson skrifar
Ráðagerðir um að breyta Landsímahúsinu í hótel hafa lengi verið í mótun og eigendur hússins hafa lagt sig fram um að haga málum þannig að framkvæmdin verði eins arðbær og kostur er. Í því efni hafa þeir fengið dyggan stuðning skipulagsyfirvalda í Reykjavík.

En jafnframt hafa báðir þessir aðilar, húseigandinn og skipulagsyfirvöld, reynt að forðast hatrömm átök við þá sem hafa mótmælt ýmsum þáttum ráðagerðarinnar. Eindregin mótmæli gegn eyðingu gamalla, merkra húsa við Ingólfstorg og Thorvaldsensstræti báru til dæmis þann árangur að þeim verður líklega hlíft. Ef það gerist þá verður það ekki vegna þess að Reykjavíkurborg hafi gætt hagsmuna okkar, heldur þrátt fyrir að hún gerði það ekki.

Nú hefði annars mátt ætla að í þessum slag ætti Reykjavíkurborg að vera gæsluaðili hagsmuna hins almenna borgara og tryggja að byggingaráformin gangi ekki á umhverfisgæði borgarinnar. En því miður verður ekki séð að það sé raunin. Áhugamenn um varðveislu menningarminja og umhverfisgæða hafa þurft að berjast fyrir því að þessum þáttum verði ekki varpað fyrir borð. Á meðan barist var gegn niðurrifi húsanna við Ingólfstorg og Thorvaldsensstræti, heimilaði Reykjavíkurborg húseigandanum að hækka Landsímahúsið með því að setja kvisti á risið þótt það gangi í berhögg við hagsmuni almennings. Betra væri að húsið yrði áfram eins og það er og hækki ekki.

Hvers vegna gengur Reykjavíkurborg gegn hagsmunum almennings – hvaða hag hefur Reykjavíkurborg af því að leyfa stækkun á þessu húsi sem er of stórt fyrir?

Skipulagsyfirvöld vilja nú heimila að ný viðbygging rísi við suðurgafl Landsímahússins í stað þeirrar sem þar er nú og nýja byggingin á að teygja sig að Kirkjustræti og leggja undir sig væna sneið af gamla kirkjugarðinum. Þessu hefur verið kröftuglega mótmælt í mörgum blaðagreinum á undanförnum vikum, en flest bendir til að ekki verði tekið tillit til mótmælanna. Þeir sem mæla þessu bót gera það með fullyrðingu um að miklu hafi verið raskað í kirkjugarðinum og því megi nota þessa sneið hans í fjáraflaskyni. Vissulega hefur staðnum verið sýnd vanvirðing um nokkurra áratuga skeið, en í þúsund ár sýndu Reykvíkingar garðinum sóma og í meira en heila öld eftir að hætt var að grafa í honum var gengið um hann með tilhlýðilegri virðingu. Raskið sem þarna hefur átt sér stað á undanförnum áratugum ætti að verða hvatning til að snúa við blaðinu en ekki réttlæting fyrir frekari spjöllum.

Ákvörðunin um að byggja í kirkjugarðinum vekur enn meiri furðu en heimildin til að hækka húsið. Hvaða hagsmunir knýja borgaryfirvöld til að fórna hluta af elsta kirkjugarði borgarinnar? Enginn hefur hag af þessu. Vera kann að húseigandinn telji að þetta sé heppilegra fyrir hann, en þegar til lengdar lætur tapa allir, hann líka.

Það sem gerir Reykjavík að áhugaverðum stað lætur undan skref fyrir skref.

Hækkun á Landsímahúsinu rýrir gildi Austurvallar og viðbyggingin sem nú er áformuð veldur spjöllum á einum merkasta minjastað borgarinnar, Víkurkirkjugarði.

Þetta gengur ekki. Við eigum að leggja alúð við minjastaði borgarinnar og fegra stræti og torg eins og kostur er þótt það falli ekki að stundarhagsmunum einstaklinga.

 

Höfundur er arkitekt.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×