Innlent

Hitamet slegið: 26,4 stiga hiti á Egilsstöðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Aldrei hefur svo hár hiti mælst á landinu í september.
Aldrei hefur svo hár hiti mælst á landinu í september. Vísir/GVA
Svo virðist sem að hitamet hafi verið slegið í dag þegar 26,4 stiga hiti mældist á Egilsstöðum klukkan fjögur. Aldrei hefur svo hár hiti mælst á landinu í september. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands var gamla metið sett á Dalatanga þann 12. september árið 1949. Þá mældist hitinn 26,0 stig. Þann 14. september 1988 mældist hitinn 25,8 stig.

Teitur Arason, veðurfræðingur, segir þetta þó ekki hafa verið staðfest að fullu, en starfsmenn Veðurstofunnar hafa verið að fletta upp gömlum hitatölum í dag.

„Gömlu metin eru inn í miðjum mánuði, svo við erum kannski að svindla pínu með því að mæla þetta núna þann fyrsta,“ segir Teitur.

Heitur landmassi er yfir landinu og sólin hefur hitað jörðina fyrir austan í dag. Þá mælist einnig mikill hiti á hálendinu norður af Vatnajökli þar sem jörðin er dökk á lit og hlýnar í sólinni. Heita loftið berst svo þaðan austur á Hérað og bætir á hitann.

„Svona getur þetta skilað sér vel þegar allt spilar saman,“ segir Teitur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×