Menning

Man eftir stóru flugunni

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Áslaug fór á útisýningarnar á Skólavörðuholti með foreldrum sínum þegar hún var barn og heillaðist.
Áslaug fór á útisýningarnar á Skólavörðuholti með foreldrum sínum þegar hún var barn og heillaðist. Vísir/Anton Brink
Bókin er mikilvægt gagn í íslenskri listasögu og góður efniviður til að rannsaka. Hún er búin dýrmætu myndefni og áður óbirtu, meðal annars af verkum sem hafa glatast að eilífu, enda voru sum þeirra úr forgengilegum efnum,“ segir Áslaug Thorlacius skólastjóri um nýja bók, Útisýningarnar á Skólavörðuholti 1967-1972 eftir þær Ingu Ragnarsdóttur myndlistarmann og Kristínu G. Guðnadóttur listfræðing.

Útgáfunni verður fagnað í dag klukkan 16 í Ásmundarsal við Freyjugötu.

Sýningarnar á Skólavörðuholti þóttu ögrandi og óheflaðar. Bókin er gefin út í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá þeirri fyrstu og jafnframt fagnar Myndlistaskólinn í Reykjavík 70 ára afmæli sínu, sýningarnar voru einmitt haldnar að frumkvæði hans.

„Þarna sýndu bæði nemendur og kennarar. Svona var þetta frjálslegt,“ segir Áslaug sem er skólastjóri Myndlistaskólans nú og var í ritstjórn bókarinnar fyrir hönd hans.

Sjálf fór hún á útisýningu með foreldrum sínum þegar hún var barn. „Ég man eftir stóru flugunni hans Magnúsar Tómassonar sem var sýnd 1970,“ nefnir hún og segir myndirnar í bókinni ómetanlega heimild um gróskutíma í þrívíðri myndlist.

„Á þessum tíma er Ísland að tengjast umheiminum í listum. Bæði Dieter Roth og hinn kóreski Nam June Paik urðu eins og vörður á þeim vegi. Við höfðum verið dálítið einangruð. Listamenn höfðu farið til náms í konunglegu akademíurnar en voru ekki þar sem mesta gerjunin var í heiminum,“ útskýrir hún og segir vissulega marga hafa litið niður á þessa nýju list.

„Þetta var líka á þeim tíma sem fólk var með afdráttarlausar skoðanir á hlutunum. Hún varð nú fræg brauðvarðan hans Kristjáns Guðmundssonar sem heilbirgðisyfirvöld bönnuðu. En auðvitað voru einhverjir hrifnir og sáu tjáningarfrelsið sem birtist í verkunum.“

Minningarsjóður um Ragnar Kjartansson, Myndlistaskólinn í Reykjavík og Myndhöggvarafélagið standa að útgáfu bókarinnar.

Áslaug segir Ásmundarsal á Freyjugötunni verða opinn líka á morgun, sunnudag, milli klukkan 16 og 18 og að bókin verði á tilboðsverði um helgina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×