Innlent

Undir stjórnendum United Silicon komið hvenær rekstur geti hafist á ný

Hersir Aron Ólafsson og Hulda Hólmkelsdóttir skrifa
Kísilver United Silicon í Helguvík.
Kísilver United Silicon í Helguvík. VÍSIR/VILHELM
Það er undir forsvarsmönnum United Silicon komið hvort og þá hvenær unnt verður að hefja rekstur kísilverksmiðjunnar í Helguvík á ný. Þetta segir forstjóri Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun tilkynnti í gærkvöldi að ákveðið hefði verið að stöðva rekstur United Silicon í Helguvík. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir margþættar ástæður liggja að baki stöðvuninni.

„Hún er tekin á grundvelli ítrekaðra frávika sem hafa verið á rekstri verksmiðjunnar. Jafnframt sá stöðugleiki í rekstri sem var forsenda endurræsingu um miðjan maí hefur ekki gengið eftir og svo að stofnunin telur hreinlega ekki viðunandi að íbúar í nágrenni verksmiðjunnar búi við þessi verulegu óþægindi sem af rekstri verksmiðjunnar hefur verið,“ segir Kristín Linda í samtali við fréttastofu.

Fyrst var tilkynnt um áformin í bréfi þann 23. ágúst, þar sem fram kom að starfsemin yrði stöðvuð í síðasta lagi 10. september, eða fyrr ef ljósbogaofn verksmiðjunnar færi niður fyrir tiltekið lágmark eða stöðvaðist í klukkustund eða meira.

Ofninn var síðan stöðvaður þann 26. ágúst í kjölfar óhapps. Fyrirtækinu var veittur framlengdur frestur til 31. ágúst til að skila inn andmælum. Forsvarsmenn þess töldu frestinn hins vegar ekki nægilega langan og andmælum var ekki skilað. Kristín Linda segir að næstu skref velti á viðbrögðum fyrirtækisins.

„Næstu skref í málinu eru þá að fyrirtækið fer yfir þær ítarlegu kröfur sem Umhverfisstofnun hefur sett og fer í úrbætur. Síðan mun fyrirtækið leggja það fyrir Umhverfisstofnun sem mun fara yfir það og meta hvort við teljum það fullnægjandi til að reksturinn geti verið í samræmi við starfsleyfi. Þannig að tímaramminn er svolítið hjá verksmiðjunni núna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×