Viðskipti erlent

Sjálfkeyrandi Domino's-bíll kominn á göturnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fyrsti sjálfkeyrandi Domino's-bíllinn er kominn í umferð í Michigan.
Fyrsti sjálfkeyrandi Domino's-bíllinn er kominn í umferð í Michigan. Dominos
Hver veit nema að í náinni framtíð muni sjálfkeyrandi bíll aka pizzunni til þín? Ford og Domino's prófa nú sérhannaða Ford Fusion-bifreið í Michican í Bandaríkjunum sem ekki einungis er sjálfkeyrandi heldur einnig búin forláta ofni til að halda pizzunni heitri.

Stefna fyrirtækin á að gera pizzusendla óþarfa og því mun enginn ganga með pizzuna upp að dyrum og hringja bjöllunni. Þess í stað munu viðskiptavinirnir þurfa að labba að bílnum og sækja pizzuna. Það er ekki síst það sem fyrirtækin hafa áhuga á að prófa.

„Hvernig munu viðskiptavinir bregðast við því að þurfa að sækja pizzuna? Við þurfum að tryggja að viðmótið sé einfalt og skýrt,“ er haft eftir forstjóra Domino's, Russel Weiner, á vef CNN.

Til þess að nálgast pizzuna sína þurfa viðskiptavinirnir að slá inn fjóra tölustafi á lyklaborð sem staðsett er á hlið bílsins. Séu réttir stafir slegnir inn opnast hleri þar sem nálgast má pizzuna.

Meðan á prófunum stendur munu verkfræðingur og ökumaður sitja í bílnum en þeim hafa verið gefið skýr fyrirmæli um að aðstoða ekki viðskiptavinina. Þá eru rúður bílsins skyggðar þannig að þeir ættu ekki að verða varir við farþega bílsins.

Bíllinn mun aka um götur Ann Arbor í Michigan næstu fimm vikurnar. Gangi prófanir vel verður sjálfkeyrandi bílunum fjölgað og látið á þá reyna í fleiri borgum vestanhafs.

Til þess að nálgast pizzuna þarf að slá inn fjóra tölustafi.Dominos





Fleiri fréttir

Sjá meira


×