Körfubolti

Martin: Vonandi er land og þjóð ekki búin að gefast upp á okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. Mynd/FIBA
Martin Hermannsson segir að strákarnir í íslenska körfuboltalandsliðinu séu ekki búnir að gefa upp vonina að vinna leik á Evrópumótinu í Helsinki þrátt fyrir þrjú 30 stiga töp í röð.

„Við höldum bara áfram og við erum ekkert hættir. Það eru tveir leikir eftir og viljinn að vinna leik er alveg jafnmikill og þegar við komum hingað. Okkur langar að vinna og ætlum að gefa allt í þetta,“ sagði Martin eftir leikinn við Frakka í gær en síðustu tveir leikirnir eru á móti Slóveníu og Finnlandi.

Íslenska liðið hefur fengið á sig gagnrýni og margir eru vonsviknir með hversu lítið liðið hefur átt í lið Grikklands, Póllands og Frakklands í seinni hálfleik leikjanna.

Í öllum leikjunum hafa andstæðingarnir keyrt yfir varnarlausa íslenska leikmenn í þriðja leikhlutanum þar sem íslensku strákarnir hafa átt fá svör á móti hærri og sterkari leikmönnun.

„Vonandi er land og þjóð ekki búin að gefast upp á okkur,“ segir Martin og bætir við: „Það vantar ekki það að við séum að leggja okkur fram. Það eru allir að því og menn eru vel þreyttir,“ segir Martin.

„Þetta lítur kannski aðeins verr út en við erum að reyna inn á vellinum. Þetta er alltof auðvelt fyrir þessa gaura. Þeir hafa svo mikla hæð og hafa svo þessa þekkingu og reynslu að vinna með sína styrkleika. Við erum hinsvegar klárlega að leggja okkur fram,“ segir Martin.

Íslenska liðið fær hvíldardag í dag en mætir svo Slóveníu á morgun.


Tengdar fréttir

Tilfinningar sem við höfum ekki fundið fyrir áður

Jón Arnór Stefánsson átti flottan leik gegn Frökkum í gær en það dugði skammt gegn einu besta liði heims. Jón segir að íslenska liðið hafi aldrei upplifað svona vonbrigði áður sem lið eins og að steinliggja á móti Pólverjum á laugardaginn. Jón vill njóta leikjanna sem eftir eru en gætu þeir verið hans síðustu fyrir landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×