Lífið

Endar daginn á prjóni

Sigríður Inga Sigurðardóttir skrifar
Vilborg segir að það sé ekki aðeins gaman að prjóna heldur líka gefandi.
Vilborg segir að það sé ekki aðeins gaman að prjóna heldur líka gefandi. MYND/VILHELM
Frá því að Vilborg Guðlaugsdóttir lærði að prjóna hefur hún verið óstöðvandi og prjónað hverja flíkina á fætur annarri.

„Prjónaáhuginn hafði lengi blundað með mér en ég hafði ekki þor til að demba mér út í handavinnu af fullri alvöru. Ég var viss um að ég gæti ekki prjónað og það óx mér í augum að lesa og prjóna eftir uppskriftum. Ég hafði af og til hugsað um að fara í Hússtjórnunarskólann og þá aðallega út af handavinnunni. Vinkona mín ákvað að fara í skólann og úr varð að ég gerði það líka,“ segir Vilborg, sem æfði fótbolta í átta ár og spilaði með yngri landsliðunum fyrir hönd Íslands.

„Ég æfði lengst af með Val og um nokkurt skeið með Þrótti en lagði fótboltaskóna á hilluna fyrir nokkrum árum.“

Vilborg er alltaf með nokkur verkefni í einu á prjónunuml.MYND/VILHELM
Vilborg hafði áður lokið námi í hjúkrunarfræði og unnið við sitt fag um nokkurt skeið en fór í hlutastarf í eina önn svo hún gæti tekið námið við Hússtjórnarskólann föstum tökum.

„Flestir fara í skólann strax að loknu stúdentsprófi og ég var því töluvert eldri en bekkjarsystkin mín, en ég lét það ekki stöðva mig. Ég lærði ekki aðeins handavinnu heldur margt mjög hagnýtt sem hefur komið sér vel í hversdagslífinu og við heimilishald. Ég lærði líka að vera óhrædd við að prófa mig áfram við að prjóna. Maður lærir mest á því að reka sig á, þurfa að prjóna áfram og rekja upp þegar villur verða,“ upplýsir Vilborg, sem er mjög ánægð með námið.

Það myndaðist góður vinskapur á milli bekkjarsystkinanna og Vilborg kynntist einni af sínum nánustu vinkonum í skólanum.

„Ég varð ekki vör við annað en að fólki fyndist gott hjá mér að taka þetta skref og sumar konur sem ég vinn með nefndu að þær hefðu áhuga á að fara í Hússtjórnarskólann.“

Vilborg er dugleg að prjóna á son sinn, sem er á þriðja ári.
Gaman og gefandi

En hvað finnst Vilborgu skemmtilegast við að prjóna? „Það er slakandi, mjög skemmtilegt, skapandi og gefandi. Mér finnst gaman að gefa öðrum það sem ég hef prjónað. Ég hef prjónað sængurgjafir og jólagjafir fyrir vini og vandamenn og finnst það persónuleg gjöf. Ég prjóna líka fyrir basar sem Kristniboðsfélag kvenna heldur ávallt í nóvember og ágóðinn rennur til góðs málefnis. Svo er líka nytsamlegt að geta prjónað vettlinga, sokka og hlý föt sem nýtast til dæmis á son minn á leikskólanum og sambýlismann minn sem er leiðsögumaður.“

Aðspurð segist Vilborg ekki vera komin á það stig að hanna sjálf flíkurnar sem hún prjónar.

„Ég er aðeins farin að fikra mig áfram við að teikna upp mynstur og prjóna eftir þeim. Ég hef hannað og prjónað eina fullorðinspeysu og eina barnapeysu. Yfirleitt finn ég uppskriftir á netinu eða í blöðum og skoða prjónasíður á samfélagsmiðlum. Á Instagram fylgist ég til dæmis með hanneoorlien, petiteknit, mammastrikk, barnehagestrikk og knittingforlove. 

Vilborg fær hugmyndir í blöðum og á samfélagsmiðlum eins og SnapChat.right
Svo er ég með „Strikkere“ á SnapChat. Það eru stelpur í Noregi sem skiptast á að vera með snappið. Þær eru með mismunandi þema í hverri viku, svo sem byrjendaprjón, leikskólaprjón og vettlinga- eða húfuprjón. Þá sýna þær hvað þær eru að prjóna eða hafa prjónað og koma með ýmis góð ráð. Ég hef gaman af því að fylgjast með þessu og fæ hugmyndir og innblástur að verkefnum.“

Vilborg skellir upp úr þegar hún er spurð hvort hún hafi hugsað sér að sýna prjónaskap á SnapChat. „Ja, það er reyndar aldrei að vita nema ég helli mér út í það. Hver veit?“

Vilborg notar lausan tíma til að prjóna og er alltaf með nokkur verkefni í gangi í einu, enda lítur hún á prjónaskap sem skemmtun en ekki kvöð.

„Ég prjóna yfir sjónvarpinu eða þegar ég hlusta á rólega tónlist eða hljóðbók. Mér finnst gott að enda daginn á því að prjóna,“ segir Vilborg að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×