Viðskipti innlent

Íslenskur frumkvöðull segir Google haga sér eins og hrekkjusvín

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jón von Tetzchner er harðorður í garð Google.
Jón von Tetzchner er harðorður í garð Google. Vísir/Getty

Íslenski frumkvöðullinn Jón von Tetzchner segir að bandaríski tæknirisinn Google níðist á smærri tæknifyrirtækjum í krafti stærðar sinnar. Tímabært sé að koma böndum á Google sem sé með yfirburðastöðu á leitarvéla- og auglýsingamarkaði á internetinu.

Þetta kemur fram í bloggfærslu sem Jón skrifar á vefsvæði fyrirtækis hans, Vivaldi. Jón hefur í gegnum tíðina þróað vafra á borð við Opera og Vivaldi sem er nýjasta verkefni hans. Segir hann að fyrst um sinn hafi samstarf hans og fyrirtækja hans við Google gengið vel, ekki síst á upphafsdögum Google þegar fyrirtækið var „nördalegt“.

Eftir því sem Google hafi stækkað segir Jón þó að smám saman hafi fyrirtækið farið að færa sig upp á skaftið og allt samstarf orðið erfiðara. Í fyrstu hafi það byrjað þegar samstarf Google og Mozilla sem útbjó Firefox-vafrann, samkeppnisaðila Jóns, varð nánara.

Síðar hafi Google þróað ýmis tæki og tól, þar á meðal ritvinnsluhaminn Google Docs, sem Jón segir að séu frábær og nýtist vel. Sá galli á gjöf Njarðar hafi hins vegar verið að Google Docs hafi til að mynda ekki virkað á Opera-vafranum og hafi notendur verið hvattir til þess að skipta Opera-vafranum út fyrir vafra sem styddi Google Docs.

Þrátt fyrir að hafa rætt þessi mál við Sergey Brin, annan stofnanda Google, hafi málin ekki þokast áfram og sömu vandamál hafi komið upp þegar Vivaldi-vafrinn var þróaður.

Geta ekki staðist freistinguna að misnota vald sitt

Alvarlegasta málið kom þó upp nýlega og segir Jón að aðgerðir Google í garð fyrirtækis síns sýni að Google geti ekki staðist að misnota það mikla vald sem Google hefur á auglýsingamarkaði.Larry Page er annar stofnanda Google og hitti Jón þegar Google var enn lítið fyrirtæki. Vísir/Getty

Google er einn stærsti seljandi auglýsinga í heiminum í gegnum Google AdWords þjónustuna sem selur og birtir auglýsingar á vefsíðum um allan heiminn. Segir Jón að Google AdWords sé mikilvæg auglýsingaþjónusta fyrir tæknifyrirtæki og stöðvi Google birtingu auglýsinga sem viðkomandi fyrirtæki reiðir sig á geti það verið reiðarslag.

Greinir Jón frá því að nýverið hafi Google lokað á auglýsingaherferð Vivaldi án aðvörunar. Segir Jón að tímasetningin hafi ekki verið tilviljun en Jón hefur að undanförnu gagnrýnt gagnasöfnun tæknifyritækja á borð við Facebook og Google.

„Tveimur dögum eftir að gagnrýni mín birtist í grein á vefsíðunni Wired komumst við því að búið var að loka á allar auglýsingar okkar í gegnum Google Adwords, án aðvörunar,“ skrifar Jón.

Þegar leitað var svara hjá Google bárust þau svör að til þess að fá aftur aðgang að auglýsingaþjónustu Google þyrfti fyrirtæki Jóns meðal annars að beygja sig undir tilmæli um hvernig ætti að raða upp efni á vefsíðu fyrirtæki Jóns.

Þriggja mánaða samningaviðræður við Google skiluðu engu og það var ekki fyrr en Jón og félagar samþykktu að gangast undir skilmála Google að fyrirtækið fékk aftur aðgang að auglýsingaþjónustu Google.

„Verandi í einokunarstöðu á leitarvéla- og auglýsingamarkaði sýnir Google að það getur ekki staðist þá freistingu að misbeita valdi sínu. Mér þykir þessi umbreyting úr nördalegu og jákvæðu fyrirtæki í það hrekkusvín sem það er árið 2017.“


Tengdar fréttir

Von Tetzchner Sendir Microsoft tóninn

"Það er kominn tími til að gera hið rétta. Hættið að stela aðal vafranum, sættið ykkur við val notenda og keppið á eigin verðleikum.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
MARL
1,63
42
800.143
TM
0,54
4
42.574
EIM
0
2
17.743
VIS
0
2
816

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
-4,08
40
141.521
ORIGO
-2,92
7
31.747
FESTI
-1,78
7
122.200
HAGA
-1,17
17
266.649
REITIR
-1,12
8
128.105
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.