Viðskipti innlent

Framkvæmdastjóri Bláa lónsins látinn fara

Hörður Ægisson skrifar
Dagný Hrönn Pétursdóttir hefur starfað hjá Bláa lóninu frá árinu 2007.
Dagný Hrönn Pétursdóttir hefur starfað hjá Bláa lóninu frá árinu 2007.
Dagný Hrönn Pétursdóttir, sem hefur verið framkvæmdastjóri Bláa lónsins um árabil, hefur verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Var henni tilkynnt um uppsögnina síðastliðinn þriðjudag, samkvæmt heimildum Vísis.

Grímur Sæmundsen, forstjóri og einn stærsti hluthafi Bláa lónsins, segir í samtali við Vísir að uppsögnin sé liður í endurskipulagningu fyrirtækisins en auk þess hafi þrír aðrir starfsmenn Bláa lónsins verið látnir fara. Ekki standi til að ráða að nýju í starf framkvæmdastjóra Bláa lónsins.

Dagný hefur starfað hjá Bláa lóninu allt frá árinu 2007. Hún á óbeint rúmlega 0,8 prósents hlut í Bláa lóninu í gegnum eignarhald sitt í Keilu ehf. sem heldur utan um 9,23 prósenta hlut í fyrirtækinu. Þá situr Dagný í stjórnum ýmissa dótturfélaga Bláa lónsins. 

Bláa lónið er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins og hefur vöxtur fyrirækisins verið ævintýranlegur á undanförnum árum. Hagnaður Bláa lónsins fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var um 3.500 milljónir króna í fyrra og þá námu tekjur fyrirtækisins yfir tíu milljörðum. Þannig hafa tekjur Bláa lónsins meira en þrefaldast frá árinu 2012. 

Fyrr í sumar barst tilboð í 30 prósenta hlut HS Orku í Bláa lóninu upp á 11 milljarða króna en fulltrúar íslenskra lífeyrissjóða, sem eiga 33,4 prósent í HS Orku í gegnum samlagshlutafélagið Jarðvarma, ákváðu að beita neitunarvaldi sínu og höfnuðu tilboðinu. 

Var það sjóður í stýringu Blackstone, eins stærsta fjárfestingarsjóðs heims, sem átti hæsta tilboðið, eins upplýst var um í Fréttablaðinu. Miðað við verðtilboð Blackstone er Bláa lónið metið á samtals um 37 milljarða.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×