Viðskipti innlent

Boðsferðirnar áttu að sökkva með hruninu

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er hinn óánægðasti með boð útvaldra í lax.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er hinn óánægðasti með boð útvaldra í lax. vísir/stefán
„Þetta er ólíðandi og við eigum ekki að láta bjóða okkur þetta. Að ríkisfyrirtæki bjóði útvöldum í laxveiðiferðir er eitthvað sem átti að sökkva með hruninu,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um laxveiðiboðsferð Íslandsbanka sem Fréttablaðið greindi frá í gær. Ekkert í eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki bannar boðsferðir. Formaður VR segir að ef stjórnendur bankanna geti ekki stýrt fyrirtækjunum í takt við það siðferði sem almenningur kallar eftir, beri að skipta þeim út.

„Af því sem við heyrum innan úr fjármálakerfinu þá er spenna í gangi, kaupréttir, launaskrið og annað sem við eigum ekki að láta bjóða okkur. Að horfa upp á þetta enn eina ferðina sigla í sama farið. Sérstaklega ekki hjá fyrirtæki sem er í eigu almennings.“

Þrátt fyrir að vera að fullu í eigu ríkisins, er Íslandsbanki undanþeginn upplýsingaskyldu og ber því ekki að upplýsa hverjum var boðið í umrædda laxveiðiferð né hver kostnaðurinn var. Ragnar furðar sig á því. „Þeim á að vera skylt að upplýsa tafarlaust hverjum var boðið og á hvaða forsendum.“

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, segir að ekkert sé að finna um boðsferðir í eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki sem taki fyrir þær. Bendir hann á að stefnan sé undirbúin í fjármálaráðuneytinu. Ekkert þar banni fyrirtækjum að bjóða viðskiptavinum í veiði. „Dagleg stjórnun bankans er á forræði bankastjóra og yfirstjórn er í höndum stjórnar bankans. Það er ekkert um þetta í eigendastefnunni og þetta er ekki eitthvað sem tekið verður fyrir á hluthafafundi.“


Tengdar fréttir

Útvaldir veiða lax í boði Íslandsbanka

Íslandsbanki hefur haldið áfram að bjóða völdum viðskiptavinum sínum í laxveiði þrátt fyrir að vera kominn í eigu íslenska ríkisins. Hinn ríkisbankinn, Landsbankinn, býður viðskiptavinum ekkert slíkt og hefur ekki gert frá hruni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×