Viðskipti innlent

Seldi birgðir af frosnum hval fyrir 1,3 milljarða

Haraldur Guðmundsson skrifar
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, tilkynnti í mars í fyrra að hvalveiðum fyrirtækisins yrði hætt sökum markaðsaðstæðna í Japan.
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, tilkynnti í mars í fyrra að hvalveiðum fyrirtækisins yrði hætt sökum markaðsaðstæðna í Japan. vísir/anton brink
Hvalur hf. seldi hvalaafurðir fyrir 1.247 milljónir króna á síðasta fjárhagsári fyrirtækisins sem lauk í september í fyrra. Skip félagsins fóru ekki til veiða sumarið 2016 en kjötbirgðir þess voru þá metnar á 2.560 milljónir króna samanborið við 3.567 milljónir árið á undan.

Samkvæmt nýjum ársreikningi Hvals, sem skilað var inn til Ríkisskattstjóra (RSK) í síðustu viku, hagnaðist félagið um rétt tæpa tvo milljarða króna frá tímabilinu 1. október 2015 til 30. september 2016. Tekjur frá dótturfélaginu Vogun hf. námu þá 3,2 milljörðum en voru 2,5 milljarðar árið á undan. Vogun á 33,5 prósenta hlut í sjávarútvegsfyrirtækinu HB Granda og 37,6 prósent í Hampiðjunni.

Hlutabréf Hvals í Vogun voru metin á 23 milljarða króna í lok fjárhagsársins en eignir fyrrnefnda félagsins námu þá alls 26,8 milljörðum. Skuldirnar voru 10,9 milljarðar og átti Hvalur 12,6 milljarða í óráðstöfuðu eigin fé.

Fiskveiðihlutafélagið Venus, í eigu Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals, Birnu Loftsdóttur og Sigríðar Vilhjálmsdóttur, var þá stærsti eigandi fyrirtækisins með 39,5 prósenta hlut. Alls eru hluthafar Hvals 111 talsins. Stjórn fyrirtækisins lagði í maí síðastliðnum til að greiddur yrði út 625 milljóna króna arður til eigenda. Þrjú árin þar á undan námu arðgreiðslur alls 2,6 milljörðum.

Hvalveiðiskip Hvals fóru síðast til veiða í september 2015. Frá 2013 til septemberloka 2015 veiddi Hvalur alls 426 langreyðar. Veiðar á þeim hófust aftur árið 2006. Kristján Loftsson sagði í mars 2016 að erfiðlega hefði gengið að koma kjötinu á markað í Japan. Fyrirtækið hefði mætt fjölmörgum hindrunum þar í landi og þær hefðu meðal annars snúið að síendurtekinni efnagreiningu á kjötinu. Fyrirtækið flutti í síðasta mánuði út um 1.400 tonn af frosnu hvalkjöti til Japans frá Hafnar­fjarðarhöfn með flutningaskipinu Winter Bay. Ekki náðist í Kristján við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×