Lífið

Björn Borg segir Sverri mega vera stoltan af frammistöðunni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sverrir Guðnason og Björn Borg hittust í fyrsta sinn í gærkvöldi.
Sverrir Guðnason og Björn Borg hittust í fyrsta sinn í gærkvöldi. Nöjesbladet
Það var ekki fyrr en við frumsýningu kvikmyndarinnar Borg, þar sem Sverrir Guðnason fer með hlutverk tennisgoðsagnarinnar Björn Borg, sem þeir tveir hittust í fyrsta sinn. Kvikmyndin var frumsýnd í Stokkhólmi í gærkvöldi en hún verður tekin til sýninga í 150 löndum á næstu vikum og mánuðum.

Aðalleikarinn Sverrir var miðpunktur athyglinnar á rauða dreglinum og var hann spurður spjörunum úr af fjölmiðlamönnum sem hópast höfðu að kvikmyndahúsinu Sergel í sænsku höfuðborginni.

Sverrir sagðist fyrir sýningu myndarinnar vera stressaður og fullur eftirvæntingar enda væri mikið undir. Hann hafi helgað sig hlutverkinu síðastliðið eitt og hálft ár og fært miklar fórnir. Að baki væru gríðarlegar tennisæfingar og strangt mataræði þar sem hann lét hvorki sykur né glúten inn fyrir sínar varir. „Ég hef undirbúið mig af kappi og borðað rétt en andlegi þátturinn er samt mikilvægastur,“ sagði Sverrir í samtali við Nöjesbladed fyrir sýningu myndarinnar í gærkvöldi.

Hér að neðan má sjá stiklu úr kvikmyndinni.

Dúndrandi lófatak

Eftir myndina var Sverrir ólíkt afslappaðari og brosti hann allan hringinn. „Það var gaman að sjá myndina með svona marga áhorfendur viðstadda. Ég er mjög hamingjusamur. Það voru standandi fagnaðarlæti. Þetta var ótrúlegt,“ sagði Sverrir í samtali við fjölmiðlamenn.

Það var við frumsýningu myndarinnar sem hann hitti fyrirmyndina, Björn Borg, í fyrsta skipti. Sverrir segir hann vera dásamlegan. „Við töluðum örlítið, hann var mjög kátur og sagði að ég mætti vera stoltur. Þá bætti ég við að hann gæti sjálfur verið stoltur, því sonur hann er frábær í myndinni,“ en hann leikur Björn Borg á unglingsárunum.

Sverrir ætlar sér að halda áfram að spila tennis en fyrst þurfti hann að læra á trompet fyrir næsta hlutverk.

Ekki auðvelt að leika mig

Sjálfur sagðist Björn Borg viljað hafa koma meira að gerð myndarinnar en að öðru leiti væri hann mjög hamingjusamur með útkomuna. „Það getur ekki verið auðvelt að leika mig,“ sagði tenniskappinn við frumsýninguna í gær.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×