Körfubolti

Spánverjar unnu Króata | Pustovyi með stórleik gegn Litháen

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Spánverjar unnu sigur
Spánverjar unnu sigur Vísir/getty
Spánverjar unnu Króata í uppgjöri efstu liða C-riðils á Evrópumótinu í körfubolta í dag. Leiknum lauk 73-79 fyrir Spánverja.

Leikurinn var æsispennandi og réðust úrslitin ekki fyrr en á lokasekúndunum. Spánverjar leiddu 32-38 í hálfleik, en staðan eftir þriðja leikhluta var 54-53 fyrir Króata.

NBA-leikmennirnir Ricky Rubio og Marc Gasol fóru mikinn í liði Spánverja í dag. Rubio skoraði 13 stig, tók 3 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Gasol skoraði aðeins 9 stig en tók niður 8 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.

Dario Saric, liðsmaður Philadelphia 76ers, var bestur Króata í leiknum með 18 stig og heil 13 fráköst. Hann gaf einnig 4 stoðsendingar og stal 2 boltum.

Fyrr í dag vann Svartfjallaland 75-88 sigur á Tékkum. Svartfellingar tóku forystu snemma leiks og létu hana aldrei af hendi. Nikola Ivanovic og Nikola Vucevic skoruðu báðir 17 stig fyrir Svartfjallaland.

Hjá Tékkum voru þrír menn með 11 stig, Tomas Satoransky skoraði 13 og Patrik Auda var stigahæstur með 14 stig.

Lettar unnu sannfærandi sigur á Rússum, 69-84 í fyrsta leik D-riðils í dag. Janis Timma skoraði 22 stig, tók 6 fráköst og gaf 3 stoðsendingar í liði Letta.

Alexey Shved var stigahæstur Rússa með 21 stig, 3 fráköst og 6 stoðsendingar.

Annars staðar í D-riðli unnu Serbar Breta 68-82. Bojan Bogdanovic var atkvæðamestur í liði Serba með 18 stig, 7 fráköst, 7 stoðsendingar og 5 stolna bolta.

Teddy Okereafor dróg lestina fyrir Breta og skoraði 17 stig, tók 4 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

Rússland, Serbía og Lettland eru öll með 7 stig í riðlinum þegar ein umferð er eftir.

Einum leik er lokið í B-riðli þar sem Litháen rústaði Úkraínu 94-62. Litháar voru með 17 stiga forystu eftir fyrsta leikhlutann og þó Úkraínumenn næðu aðeins að krafsa í bakkann fyrir hálfleikinn þá var sigurinn aldrei í hættu.

Toranto Raptors-maðurinn Jonas Valanciunas var bestur allra hjá Litháum í dag með 22 stig, 14 fráköst og eina stoðsendingu.

Einn maður skoraði næstum helming stiga Úkraínumanna í leiknum. Artem Pustovyi, sem leikur með Obradoiro í spænsku deildinni skoraði 29 stig. Enginn af liðsfélögum hans náði meira en 5 stigum. Pustovyi tók einnig 8 fráköst og gaf tvær stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×