Viðskipti innlent

Hagnaður tískukeðjunnar NTC tvöfaldaðist í fyrra

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Svava Johansen, einn eigenda NTC.
Svava Johansen, einn eigenda NTC. vísir/anton brink
Hagnaður tískukeðjunnar NTC, sem rekur meðal annars verslanirnar Sautján, Evu og GK Reykjavík, nam 81 milljón króna í fyrra og nær tvöfaldaðist á milli ára, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi keðjunnar.

NTC seldi vörur fyrir 2,1 milljarð króna í fyrra og jókst vörusalan um sex prósent á milli ára. Rekstrarkostnaður keðjunnar nam um 977 milljónum króna í fyrra og jókst um 33 milljónir á milli ára.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 147,8 milljónir króna í fyrra og jókst um 51 prósent frá fyrra ári.

Eigið fé tískukeðjunnar var 242 milljónir króna í lok síðasta árs, borið saman við 181 milljón í lok árs 2015, og þá námu eignir NTC um 803 milljónum króna í lok árs 2016. Var eiginfjárhlutfallið því 30,1 prósent.

Stjórn tískukeðjunnar leggur til að greiddar verði fjörutíu milljónir króna í arð á þessu ári.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×