Körfubolti

Hlynur: Það þykir mér svolítið leiðinlegt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska landsliðsins.
Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska landsliðsins. Vísir/Ernir
Íslenska körfuboltalandsliðið hefur tapað fjórum leikjum í röð á Evrópumótinu í Helsinki og öllum leikjunum með 27 stigum eða meira.

Þessi stóru töp hafa kallað á spurningar og gagnrýni enda flestir að bera þetta móti saman við EM í Berlín fyrir tveimur árum þar sem íslenska liðið tapaði öllum leikjunum sínum líka en tapaði þeim aftur á móti ekki eins stórt.

„Mér finnst þetta ekki leiðinlegt gagnvart körfuboltaspekúlöntum sem eru inn í leiknum og þekkja þetta betur. Þeir sem fylgjast með Evrópuboltanum vita alveg að það er dálítill munur á okkur og Slóveníu sem og þessum liðum,“ segir Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska landsliðsins.

„Mér finnst það leiðinlegt gagnvart fólki sem kannski bjóst við meiru. Ég geta alveg fullvissað alla um það að það hafa allir reynt sitt allra besta. Það vantar aldrei neitt upp á það,“ segir Hlynur.

„Það þykir mér svolítið leiðinlegt að fólk sem bjóst við meiru hafi orðið fyrir einhverjum vonbrigðum,“ segir Hlynur en hann og strákarnir hafa reynt að gera það besta úr erfiðri stöðu og það hjálpar vissulega að fá frábæran stuðning.

„Það vantar ekki upp á þakklætið frá okkur. Við erum himinlifandi með þennan stuðning,“ segir Hlynur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×