Fótbolti

Færeyingar fögnuðu nýju stigameti vel og innilega

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn færeyska liðsins fagna marki.
Leikmenn færeyska liðsins fagna marki. Vísir/Getty
Færeyingar eru rétt eins og Íslendingar hæstánægðir með knattspyrnulandslið sitt en færeyska liðið hefur sett nýtt stigamet í sögu sinni. Liðið er komið með átta stig í undankeppni HM 2018 en það vann Andorra á heimavelli á sunnudag, 1-0.

Færeyingar byrjuðu undankeppnina á glæsilegan máta, með því að ná markalausu jafntefli gegn Ungverjalandi sem var þá nýbúið að keppa á EM í Frakklandi. Síðan kom frábær 2-0 sigur á Lettlandi á útivelli.

Síðan komu fimm leikir í röð án sigurs - fjögur töp og svekkjandi markalaust jafntefli við Andorra á útivelli. En þeir bættu fyrir það með sigrinum á sunnudag og fá Færeyingar tækifæri til að bæta stigametið enn frekar þegar þeir taka á móti Lettum í Þórshöfn þann 7. október.

Rúmlega 50 þúsund manns búa í Færeyjum og en rétt tæp tíu prósent íbúanna voru á vellinum á sunnudag og urðu vitni að þessum sögulega sigri.

Þjálfari liðsins er hinn danski Lars Olsen og hann sagði í samtali við TV2 í Danmörku að það hafi verið mikil gleði eftir leikinn.

„Fögnuðurinn var gríðarlegur eftir leik. Það tók leikmenn 5-10 mínútu að komast inn í klefa og þá byrjaði fögnuðurinn aftur. Og ég held að þau eigi þetta skilið - sérstaklega leikmennirnir,“ sagði Olsen.

„Þeir sem spila með færeyska liðinu eru að leggja hart að sér á hverjum degi og leggja mikið á sig í hverjum einasta leik. Það er engin stjarna í liðinu - liðið sjálft er stjarnan. Þeir eiga þetta skilið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×