Erlent

Irma hefur þegar valdið miklum skaða

Samúel Karl Ólason skrifar
Irma séð úr geimnum. Til vesturs má svo sjá óveðrið Jose, sem er að styrkjast og stefnir einnig á Karíbahafið.
Irma séð úr geimnum. Til vesturs má svo sjá óveðrið Jose, sem er að styrkjast og stefnir einnig á Karíbahafið. Vísir/AFP
Fellibylurinn Irma hefur þegar valdið miklum skaða á nokkrum eyjum í Karíbahafinu. Þetta segja yfirvöld í Frakklandi, sem stjórna eyjum á svæðinu. Gérard Collomb, innanríkisráðherra Frakklands, segir fjórar sterkustu byggingar eyjunnar Saint Martin vera eyðilagðar.

Engar fregnir hafa borist af mannfalli og Collomb segir að líkur séu á frekari skemdum. Yfirvöld Frakklands sögðust fyrr í dag hafa áhyggjur eftir að þúsundir íbúa á eyjunum neituðu að leita skjóls.

Irma náði fyrst landi á Antigua og Barbuda og fór svo yfir Saint Martin og Saint Barthélemy.

Fellibylurinn Irma er öflugasti fellibylur sem mælst hefur á Atlantshafi samkvæmt mælingum Bandarísku fellibyljastofnunarinnar. Mesti vindhraði sem Irma hefur náð hingað til er um 300 kílómetrar á klukkustund sem gera um 83 metra á sekúndu. Til samanburðar er mesti vindhraði sem mælst hefur á Íslandi 74,2 metrar á sekúndu. 

Búist er við því að Irma mun næst skella á Puerto Rico og síðan á Dóminíska lýðveldinu.

Í Puerto Rico búast íbúar við að vera án rafmagns í allt að sex mánuði en búist er við því að Irma muni einnig valda miklum skaða þar samkvæmt frétt Washington Post.


Tengdar fréttir

Fimmta stigs fellibylur ógnar Ameríku

Fjölmargar eyjar í Kyrrahafi hafa lýst yfir neyðarástandi vegna fellibylsins Irmu. Stormurinn stefnir á Flórída en þar sem stutt er liðið frá því að Harvey hrelldi Bandaríkin gætu neyðarsjóðir klárast.

Fylgstu með Irmu á gagnvirku korti

Fellibylurinn Irma fer nú yfir eyjarnar á Karíbahafi en hún er öflugasti fellibylur sem mælst hefur á Atlantshafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×