Körfubolti

Ná báðir Markkanen bræðurnir að vinna Ísland í sömu vikunni?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eero Markkanen var framherji Finna í 1-0 sigrinum á Íslandi í Tampere en hann er eldri bróðir Lauri Markkanen.
Eero Markkanen var framherji Finna í 1-0 sigrinum á Íslandi í Tampere en hann er eldri bróðir Lauri Markkanen. Vísir/Getty
Íslenska körfuboltalandsliðið fær að glíma við framtíðar NBA-stjörnuna Lauri Markkanen í kvöld þegar Ísland og Finnland mætast í síðasta leik riðilsins í Helsinki.

Finnar hafa þegar tryggt sér sæti í útsláttarkeppninni í Istanbul en íslensku strákarnir eru á heimaleið eftir leikinn í kvöld.

Þetta verður annar leikur Íslands og Finnlands hjá A-landsliðum karla því fótboltalandslið þjóðanna mættust í Tampere í Finnlandi á laugardaginn var. Þar unnu Finnar.

Eero Markkanen var framherji Finna í 1-0 sigrinum á Íslandi í Tampere en hann er eldri bróðir Lauri Markkanen. Eero spilaði allan leikinn í framlínu finnska liðsins sem var hans þrettándi landsleikur.

Eero var aftur á móti á varamannabekknum þegar Finnar unnu 1-0 sigur á Kósóvó í gær.

Eero Markkanen er 26 ára, fæddur árið 1991, en hann er leikmaður þýska liðsins Dynamo Dresden í dag eftir að hafa komið þangað í láni frá AIK.

Lauri Markkanen er 20 ára, fæddur 22. maí 1997. Hann mun spila með Chicago Bulls í NBA-deildinni á komandi tímaibli.

Lauri Markkanen hefur farið á kostum á EM í Helsinki og það er ljóst að þar fer leikmaður sem er líklegur til að vera stjarna í NBA á komandi tímabili.

 

Lauri er með 22,5 stig að meðaltali í leik á EM í Helsinki og hefur hitt úr 56 prósent skota sinna utan af velli, sett niður 50 prósent þriggja stiga skota sinna og þá hafa 86 prósent víta hans hafa farið rétta leið.

Ná er bara að sjá hvort báðir Markkanen bræðurnir nái því að fagna sigri í landsleik á móti Íslandi í sömu vikunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×