Körfubolti

Pavel: Strákarnir sem eru að koma upp eru miklu hæfileikaríkari en við vorum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pavel átti góðan leik gegn Finnum.
Pavel átti góðan leik gegn Finnum. vísir/epa
Pavel Ermolinskij spilaði sinn besta leik á EM þegar Ísland tapaði fyrir Finnlandi í lokaleik sínum á mótinu í kvöld.

„Við vorum með þetta en köstuðum þessu frá okkur. Það hefur áður komið fyrir á körfuboltaferlinum en aldrei eins sárt og núna. Það er erfitt að vera jákvæður þótt þetta hafi verið frábær frammistaða og frábær leikur hjá okkur,“ sagði Pavel í samtali við Vísi eftir leik.

Íslenska liðið spilaði vel á löngum köflum í leiknum. Sóknin gekk ágætlega og varnarleikurinn í 3. leikhluta var magnaður.

„Vörnin var alveg frábær. Hún hefur yfir höfuð ekki verið nógu góð á mótinu. Það er erfitt fyrir okkur að skora og við þurfum að treysta á varnarleikinn,“ sagði Pavel.

En hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir íslenska landsliðið?

„Ég veit það ekki. Þetta var eflaust síðasti séns fyrir suma hérna. Það er kannski það erfiðasta,“ sagði Pavel. En er hann að íhuga að hætta í landsliðinu?

„Það er alltaf óráðið. Það verður bara að koma í ljós. Ég held að það sé nokkuð ljóst að ég fer ekki á annað Evrópumót.“

Pavel segir að nú þurfi að búa til nýjan kjarna í landsliðinu.

„Framtíðin er björt. Það er fullt af ungum strákum sem fengu stór hlutverk á þessu móti. Það þarf bara að móta nýjan kjarna. Strákarnir sem eru að koma upp eru miklu hæfileikaríkari en við vorum. Núna þurfa þeir að búa til einhvers konar heild, næstu kynslóð,“ sagði Pavel að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×