Innlent

Útflutningur lambs á hrakvirði

Sveinn Arnarsson skrifar
Íslendingar greiða töluvert hærra verð fyrir lambalæri í verslunum en viðskiptavinir erlendis.
Íslendingar greiða töluvert hærra verð fyrir lambalæri í verslunum en viðskiptavinir erlendis. vísir/gva
Á fyrstu sjö mánuðum ársins voru flutt út um 1.050 tonn af lambakjöti samanborið við tæp 1.300 tonn fyrstu sjö mánuði ársins 2016. Meðalverð afurðanna nú er um 500 krónur á hvert kíló. Fyrir tveimur árum var verðið sem fékkst í útflutningi rúmar 800 krónur.

Vandi sauðfjárbænda er mikill. Útflutningsverðið hefur hrapað síðustu tvö árin og nú er svo komið að afurðastöðvarnar tapa háum fjárhæðum á hvert kíló sem sent er utan.

Sem dæmi hefur 232 tonnum af frystum lambalærum og lambalærissneiðum verið flutt út á fyrstu sjö mánuðum þessa árs. Verðið sem fengist hefur fyrir þann hluta er um 600 krónur á hvert kíló. Til samanburðar er ódýrasta lambalærið í Bónus á rúmar 1.000 krónur kílóið.

Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, bendir á að þetta sé allt of lágt verð. „Það eru allir sammála um að það verð á útflutningi sem við sjáum í dag er of lágt. Það var of lágt í fyrra en hefur lækkað meira núna í ár,“ segir Oddný Steina. „Þess vegna er mikilvægt að bregðast við stöðunni með tímabundnum aðgerðum. Við bentum á ákveðnar leiðir sem ráðherra hafnaði.“

Oddný Steina segir of margt sauðfé í landinu. „Eins og staðan er núna er offramleiðsla á lambakjöti. Hins vegar var ekki offramleiðsla fyrir tveimur til þremur árum. Fé mun fækka eftir útspil ráðherra, það er á hreinu. Það er hvati til þess að fækka fé.“

Á síðasta ári var 555 þúsund lömbum slátrað sem er ekki ósvipað því sem verið hefur frá 2012. Hins vegar var meðalþyngd lamba í fyrra sú mesta á því tímabili, eða um 16,7 kíló. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×