Innlent

Menntskælingum við Sund boðið í djammferð hringinn í kringum landið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það verður örugglega mikið stuð á leiðinni á Eskifjörð um helgina.
Það verður örugglega mikið stuð á leiðinni á Eskifjörð um helgina.
Óhætt er að segja að mikil spenna ríki fyrir formannskosningu hjá Sambandi ungra sjálfstæðismanna sem fram fer á Eskifirði á sunnudaginn. Kosningin er lokahnykkurinn í Sambandsþingi SUS sem hefst á morgun, föstudag.

Stór hluti þeirra Heimdellinga sem eiga atkvæðisrétt á þinginu verður þó ekki mættur fyrr en rétt fyrir kosningu á sunnudaginn. Enda margir þeirra ekki virkir sjálfstæðismenn og nýskráðir í flokkinn.

Trúnaðarmenn fá ekki atkvæðisrétt

585 manns hafa atkvæðisrétt á þinginu um helgina en viðkomandi þurfa að vera skráðir í ungliðafélög sjálfstæðisflokksins og hafa lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi. Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, hefur langflest sæti á þinginu eða 263 sæti. Rétt tæplega helming.

Stjórn Heimdalls setur saman lista yfir fulltrúa félagsins á þinginu. Ekki liggur fyrir hvernig stjórn Heimdalls raðar á listann en úr mörgum er að velja þar sem 550 sóttu um sæti á þinginu fyrir hönd Heimdalls. Ekki náðist í Friðrik Þór Gunnarsson, formann Heimdalls, til að fá nánari útskýringar á því hvernig fólk væri valið á listann.

Hefur gætt mikillar óánægju með listann frá stuðningsmönnum annars frambjóðandans, Ingvars Smára Birgissonar. Saka stuðningsmennirnir stjórn Heimdalls um að ganga erinda hins frambjóðandans, Ísaks Einars Rúnarssonar. 

Þannig fái fjölmargir reykvískir sjálfstæðismenn, sem gegnt hafa trúnaðarstörfum fyrir flokkinn um árabil, ekki sæti á þinginu. Telja þeir það vera vegna þess hvernig þeir munu haga atkvæði sínu á þinginu. Á sama tíma séu fjölmargir á lista þeirra 263 sem fá að kjósa sem hafi ekki á neinn hátt verið virkir innan Sjálfstæðisflokksins og einfaldlega plantað á listann því þeir muni kjósa Ísak.

Umtalsverðir lögheimilisflutningar hafa verið undanfarið eins og Vísir hefur fjallað um. Borið hefur á því að stuðningsmenn beggja formannsefna hafi flutt lögheimili sín til Reykjavíkur til að reyna að tryggja sér sæti á þinginu sem fulltrúi Heimdalls.

Krökt verður af ungum sjálfstæðismönnum á Eskifirði um helgina. Þá mæta ráðherrar flokksins á þingið allir sem einn.Vísir
Mjög fjölmenn ferð

Um 700 kílómetrar eru frá Reykjavík til Eskifjarðar og því 1400 kílómetra ferðalag fyrir þá sem fara akandi. Ísak Einar og kosningateymi hans ætlar að bjóða sínum stuðningsmönnum í fjölmenna skemmtiferð austur á firði. 

„Þetta er mjög fjölmenn ferð og fullt af fólki að koma,“ sagði Ísak í samtali við Vísi í morgun. Hann segir erfitt að festa hendi á hve margir ætli að fara enda sé talan pínu breytileg.

Samkvæmt heimildum Vísis á að gista á Sauðárkróki á föstudaginn þar sem slegið verður upp balli og gist. Á laugardeginum verður ferðalaginu haldið áfram, skemmtun verði á Egilsstöðum og gist um nóttina. Á sunnudeginum verði loks haldið á Eskifjörð en þar fer einmitt formannskosningin fram.

700 kílómetra vegalengdin frá Reykjavík til Eskifjarðar miðast reyndar við að ekið sé um Suðurlandið. Noðrurleiðin er því enn lengri.

Þeim sem stendur ferðin til boða hefur verið kynnt að allt verði í boði. Frí rúta, frí gisting og frítt áfengi. Meðal þeirra sem boðið hefur verið í ferðina eru nemendur við Menntaskólann við Sund. Þeir eru á aldrinum 16-19 ára en lögum samkvæmt má ekki bjóða fólki undir tvítugu upp á áfengi.

Aðspurður hvernig verði staðið að þessum þætti í ferðinni, er varðar áfengi og fólk undir tvítugu, óskaði Ísak eftir að fá spurningarnar sendar skriflega. Hann ætlaði að svara þeim eins fljótt og hægt væri en mjög mikið væri að gera þessa stundina.

Ísak hafði ekki svarað fyrirspurn Vísis þegar þessi frétt fór í loftið.

Foreldrum nemenda við MS hefur verið tilkynnt að engin skipulögð ferð sé á vegum skólans eða nemendafélagsins um helgina.Vísir/stefán
Alvarlegt mál

Árni Freyr Baldursson, ármaður nemendafélagsins MS, segir aðkomu nemendafélagsins að ferðinni alls enga. Hann sé sjálfur ekki að fara í þessa ferð og enginn úr aðalstjórn.

„Við erum einmitt að fara á stúfana og leiðrétta þetta,“ segir Árni Freyr sem sjálfur er virkur í ungliðastarfi SUS og með sæti á þinginu um helgina. Hann viðurkennir að sér hafi verið boðið í ferðina en annars þekki hann ekki nógu vel til hennar.

„En þetta er ekki að neinu leyti á vegum skólans eða skólafélagsins. Það er enginn að ýta undir þetta eða taka þátt í þessu. Það kemur ekki til greina.“

Hann segist ætla að komast að því hver standi fyrir boðunum til nemenda en ferðin hafi í það minnsta ekki verið auglýst innan skólans. Hann hafi heyrt af „djammhringferð“ og kennslustjórinn við MS hafi sömuleiðis verið að skoða málið.

„Þetta er alvarlegt mál og gengur ekki upp.“

Vakandi fyrir gylliboðum

Málið var til skoðunar hjá skólayfirvöldum í MS í morgun. Helga Sigríður Þórsdóttir konrektor segir skólayfirvöld hafa fnegið einhverjar fregnir af ferðinni.

„Við erum búin að kanna málið hjá okkur og erum þess fullviss að hún sé ekki skipulögð af nemendum skólans. Í samstarfi við foreldrafélagið hefur foreldrum verið gert viðvart á Facebooksíðu foreldrafélagsins og hvattir til þess að ræða við sín ungmenni. Hvað nemendur gera, ef við á með leyfi sinna forráðamanna, utan skólatíma er ekki á ábyrgð skólans.“

Segir Helga að frambjóðendur til formanns SUS viti væntanlega meira um málið og benti á Ísak Rúnarsson.

Formaður foreldraráðs MS sendi í morgun tilkynningu til foreldra nemenda í skólanum.

„Af gefnu tilefni vill Menntaskólinn við Sund taka af öll tvímæli um að ekki er fyrirhuguð nein ferð fyrir nemendur, hvorki á vegum skólans né nemendafélagsins, um komandi helgi.

Foreldraráð MS vill biðja foreldra að vera vakandi fyrir ýmsum gylliboðum sem oft eiga engin erindi til ólögráðra einstaklinga,“ segir í tilkynningunni. Eru foreldrar hvattir til að ræða málin við börnin og ráðleggja eftir bestu getu.

Ísak Einar Rúnarsson.
Ekkert einsdæmi

Ísak Einar Rúnarsson og Ingvar Smári Birgisson berjast um embætti formanns.

Ísak, sem er 25 ára, er fyrrverandi formaður Stúdentaráðs, hefur verið öflugur í háskólapólitíkinni með Vöku og starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Hann er með BA-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands.

Ingvar Smári er 24 ára, fyrrverandi formaður Heimdalls og hefur sömuleiðis unnið á Morgunblaðinu. Hann er með BA-gráðu í lögfræði.

Ingvar Smári Birgisson.
Kosið er til formanns SUS á tveggja ára fresti. Má segja að það sé regla frekar en undantekning að í aðdraganda formannskosninga fari af stað umfangsmikil smölun sem vekur þó mismikla athygli. 

Árið 2009 stefndi allt í að Fanney Birna Jónsdóttir, þá formaður Heimdalls, væri ein í framboði til formanns SUS. 

Degi fyrir kosninguna kom framboð frá Ólafi Erni Níelsen. Á kosningadaginn sjálfan var fimmtíu sæta flugvél tekin á leigu og stuðningsfólki Ólafs Arnar flogið vestur. Þátttökugjaldið var greitt fyrir þá og þeir gengu til kosninga. Hafði Ólafur Örn betur í kosningunni með 106 atkvæðum gegn 98 atkvæðum Fanneyjar Birnu.

Ólafur Örn er einmitt einn þeirra sem stjórn Heimdalls veitti ekki aðalsæti á þinginu um helgina en hann mun vera yfirlýstur stuðningsmaður Ingvars Smára.


Tengdar fréttir

Leyndardómsfullir fólksflutningar í aðdraganda formannskosninga

Sjö ungir menn, sem allir bjuggu áður í öðrum bæjarfélögum, hafa flutt lögheimili sitt að Álftamýri 73 í Reykjavík í aðdraganda sambandsþings Sambands ungra sjálfstæðismanna, SUS, sem haldið verður helgina 8.-10. september.

Fimm aðildarfélög SUS hyggjast segja sig úr sambandinu

Ingvar Smári, sem býður sig fram til formanns segir að "stjórn Heimdallar, félags ungra Sjálf­stæðismanna í Reykjavík, sem leynt og ljóst styður framboð Ísaks Rúnarssonar, til formennsku gætti þess við val á lista sinn að útiloka þá frá þinginu sem ekki eru yfirlýstir stuðningsmenn hans.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×