Skoðun

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi – Jökulsárlón eftir stíflun Jökulsár

Páll Imsland skrifar
Við framkvæmdir eins og lýst er í annarri grein minni af þremur um Jökulsárlón myndi eðli Jökulsárlóns breytast. Það yrði ekki lengur sjávarlón með ísöltu vatni og breytilegu hitastigi, heldur stöðuvatn sem fengi vatn sitt við bráðnun Breiðamerkurjökuls og innrennsli úr nágrenninu.

Slíkar aðgerðir myndu þegar frá líður hægja verulega á bráðnun Breiðamerkurjökuls. Bráðnun hans er hraðari en annarra jökla vegna þess mikla varma sem berst inn í lónið með sjónum á innfallinu. Sjórinn sem inn streymir er hlýr og allur varminn fer í að bræða ísinn, jökulinn og fljótandi jaka. Vatnið sem rennur út úr lóninu á útfalli er orðið kalt, komið niður undir bræðslumark íss, þ.e.a.s. niður undir 0°C.

Stíflun Jökulsár leiðir þannig til hægari bráðnunar Breiðamerkurjökuls. Við það mun skriðhraði hans fram í lónið minnka. Jakar myndu eftir það brotna framan af jöklinum í minna mæli en nú gerist og Breiðamerkurjökull myndi í raun rýrna til muna hægar en hann gerir nú.

Lagnaðarísar á lóninu yrðu mun algengari á vetrum en nú er, bæði þykkari og auk þess myndu þeir endast mun lengur. Upp úr ísnum sköguðu íströllin, innifrosnir jakar og ísbjörg. Við þetta myndi skapast önnur gerð af ævintýraheimi en sú sumarmynd sem einkennist af fljótandi borgarís.

Breytt lífríki

Lífríkið myndi breytast verulega. Sjávarlífheimurinn sem setur nú sterkan svip á lónið, einkum frammi við ána, með selum og síli, átu, sjófugli og sjávarfiskum mun hverfa að verulegu leyti. Námundin við hafið mun þó ráða því að ekki hverfi þetta allt. Í stað þess mun koma lífríki sem ber sterkari einkenni stöðuvatna, líklega nokkru tegundafátækari en núverandi lífheimur er. Hitastig vatnsins í stöðuvatninu yrði að jafnaði lægra en það er í sjávarlóninu og selta vatnsins mun lægri. Vatnið yrði annars konar vistkerfi.

Ferðamannaparadísin Jökulsárlón yrði ekki hin sama eftir stíflun. Aðdráttarafl staðarins hyrfi samt áreiðanlega ekki, en líklega yrðu svokallaðir ferðaþjónustuaðilar að endurskipuleggja starfsemina og leggja nýjar áherslur að minnsta kosti yfir vetrartímann. Líklega kæmu mun fleiri og meiri vetrarmöguleikar ferðamennskunnar til álita en nú er.

Í þessum þrem greinum mínum hef ég fjallað stuttlega um Jökulsárlón á Breiðamerkursandi frá ýmsum hliðum. Niðurstöður þessara greinaskrifa eru einkum þrjár:

Það var líklega bæði óþarft og gagnslaust að friða Jökulsárlón og nágrenni og það hjálpar hvorki mannlífi nútímans né framtíðarinnar. Það mun ekki tryggja núverandi ástand náttúrunnar á svæðinu til frambúðar og aðgang komandi kynslóða að þeirri náttúru, sem er verið að friða.

Jökulsárlón sem svokölluð ferðamannaparadís mun breytast við nauðsynlegar strandvarnir á svæðinu. Kannski munu þar skapast möguleikar til vetrarparadísar í ferðamennsku, möguleikar sem ekki eru nú til staðar.

Við strandvarnir munu á hinn bóginn samgöngur um Breiðamerkursand verða varanlegar og línulagnir tryggar til langrar framtíðar. Allt stefnir nú í að þetta muni hverfa innan skamms ef ekkert er að gert til að tryggja framtíð þess.

 

Höfundur er jarðfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×