Viðskipti innlent

Raforkan mun ráða verðmiða álversins

Haraldur Guðmundsson skrifar
Rio Tinto Alcan hyggst selja álverið í Straumsvík og leitar nú tilboða í það.
Rio Tinto Alcan hyggst selja álverið í Straumsvík og leitar nú tilboða í það. VÍSIR/VILHELM
„Það er möguleiki að selja þetta álver en kaupverðið verður kannski ekki mjög hátt. Ég sé ekki hver gæti haft áhuga en það eru stórir álframleiðendur eins og Norsk Hydro og Rusal sem hefur gengið vel upp á síðkastið með hækkandi álverði,“ segir Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum, um ákvörðun Rio Tinto um að leita tilboða í álverið í Straumsvík.

„Það hversu áhugavert álverið er ræðst fyrst og fremst af raforkusamningnum við Landsvirkjun og raforkuverðinu. Af því að það er hátt miðað við hin álverin mun það hafa áhrif,“ segir Ketill.

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi, sagðist í kvöldfréttum Stöðvar 2 á miðvikudag engar áhyggjur hafa af eftirspurn. Sérstaða álversins væri mikil, það noti endurnýjanlega raforku úr vatnsaflsvirkjunum og framleiði virðisaukandi sérvöru.

Ketill Sigurjónsson
„Ef álverð helst svipað og það er núna ætti þetta álver að skila hagnaði og þá er ekki tilefni til að loka því,“ segir Ketill og bendir á að álverið og Landsvirkjun hafi ekki viljað svara því hvort samið hafi verið um kaupskyldu móðurfélagsins Rio Tinto á raforku út 2036.

„Í eldri samningi var kaupskylda á móðurfélaginu þannig að það var í raun óraunhæft að loka álverinu og betra að halda áfram og framleiða. Ef þessi kaupskylda er til staðar þá er mjög ólíklegt að þetta álver loki.“

Gildandi raforkusamningi var breytt í desember 2014 eftir að ljóst var að markmið um framleiðsluaukningu í Straumsvík, sem ráðist var í eftir að tillaga um stækkun álversins var felld af íbúum Hafnarfjarðar árið 2007, náðist ekki að fullu. Rio Tinto fékk að skila 35 megavöttum af afli en Landsvirkjun hafði reist Búðarhálsvirkjun til að efna samninginn. Kostnaður álversins við verkefnið nam meira en 60 milljörðum króna eða á við samanlagðan hagnað þess yfir tíu árin þar á undan.

Niðurstaðan varð átta prósenta framleiðsluaukning en ekki 20 eins og stefnt var að þegar samningurinn var undirritaður árið 2010.

„Það var ekki að ástæðulausu að það var lögð svona mikil áhersla á að ná meiru út úr álverinu. Það er því rökrétt ályktun að álverið sé ekki jafn hagkvæmt og mörg önnur álver í heiminum.“ 

Fyrirtækið var rekið með 28,8 milljóna dala tapi í fyrra eða sem nemur 3,3 milljörðum króna miðað við gengið í árslok 2016. Tekjur verksmiðjunnar í Straumsvík námu þá 387 milljónum dala og drógust saman um fimmtán prósent frá fyrra ári. Í skriflegu svari Rannveigar við fyrirspurn blaðsins í júní síðastliðnum sagði hún að afkomuna í fyrra mætti að mestu leyti rekja til lágs álverðs á heimsmarkaði og hás orkuverðs. Benti Rannveig á að verðið hefur hækkað umtalsvert síðan seint á síðasta ári en að sterk staða krónunnar hefði einnig áhrif til hins verra.

Árið 2012 var álverið rekið með tapi í fyrsta sinn síðan Rannveig tók við sem forstjóri þess árið 1997. Ráðist var í miklar aðhalds- og sparnaðaraðgerðir og þurfti að ganga lengra í þeim efnum en áður. Síðan þá hefur reksturinn einungis einu sinni skilað jákvæðri afkomu eða upp á 1,9 milljónir Bandaríkjadala árið 2013. Var tapið mest árið 2013 eða 32 milljónir dala sem jafngilti þá 3,7 milljörðum króna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×