Innlent

Blés lífi í manninn sem stökk í Ölfusá

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
„Maður sofnar bara glaður því maður veit að maður gerði vel“, segir Viðar Arason, björgunarsveitarmaður á Selfossi sem blés lífi í mann sem stökk í Ölfusá í gærkvöldi. Það tók félaga í Björgunarfélagi Árborgar ekki nema níu mínútur að ná manninum upp úr ánni frá því að fyrsti bátur fór á ánna.

Það gekk mikið á við Ölfusárbrú í gærkvöldi þegar ökumaður keyrði fyrst niður ljósastaur áður en hann kom á brúnna en þar keyrði hann á brúarhandrið, hljóp úr bílnum og stökk í ánna. Félagar í Björgunarfélagi Árborgar voru ekki lengi að bregðast við en svo heppilega vildi til að þeir voru að fara að hefja fund í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi þegar útkallið kom.

„Og okkar fólk setur strax báta á ánna og fyrsti bátur er kominn að manninum og búinn að ná honum um borð 9 mínútum síðar. OG honum er síðan komið í hendurnar á sjúkraflutningamönnum sem sinna honum þangað til þyrla Landhelgisgæslunnar kemur og flytur hann til Reykjavíkur. Þetta er árangur af þrotlausum æfingum og námskeiðum og við leggjum mikið upp úr því við séum með gott viðbragð á Ölfusá. Þetta er okkar heimasvæði og við þurfum að vera með allt í toppstandi hér,“ segir Tryggvi Hjörtur Oddsson.

Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins en samkvæmt upplýsingum þaðan er maðurinn með meðvitund og dvelur á Landspítalnum

Það var mikill viðbúnaður hér við Ölfusárbrú en það var Viðar Arason, björgunar- og sjúkraflutningamaður, sem blés lífi í manninn

„Hann var ekki með meðvitund en öndunin kom til baka og var til staðar,“ segir Viðar.

Hann vill ekki gera mikið úr afreki sínu enda segist hann bara vera hluti af þeirri heild sem kom að björgun mannsins .

En hvernig gekk Viðari að sofna í gærkvöldi eftir björgunarafrek dagsins ?

„Maður sofnar bara glaður. Maður veit að maður gerði vel og ég er viss um að allir gerðu það sem voru á vettvangi í gær.“


Tengdar fréttir

„Þetta var mögnuð björgun“

Maðurinn sem stökk út í Ölfusá barst með ánni í um 15 til 20 mínútur áður en honum var bjargað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×