Körfubolti

Breti bestur í riðlakeppninni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Olaseni í leik Breta gegn Belgum á Eurobasket
Olaseni í leik Breta gegn Belgum á Eurobasket Vísir/getty

Hinn breski Gabe Olaseni var bestur allra í riðlakeppni Evrópumótsins í körfubolta. Alþjóðakörfuboltasambandið, FIBA, reiknar út framlag (e. efficiency) leikmanna í hverjum leik og var Olaseni með 26,8 að meðaltali í leik í riðlakeppninni.

Til samanburðar þá var Goran Dragic, leikmaður Miami Heat og slóvenska landsliðsins, næsthæstur með 24,2 í framlag að meðaltali í leik. Dragic var stigahæstur í riðlakeppninni, með 24,4 stig að meðaltali í leik.

Mikill munur er á liðum þessara tveggja, en Slóvenar eru enn taplausir í mótinu og þykja sigurstranglegir, á meðan Bretar unnu ekki leik. Bretar höfðu aldrei áður komist í lokakeppni Eurobasket, en eru þó í 22. sæti styrkleikalista FIBA.

Olaseni er 25 ára og 2,10 metrar að hæð. Hann spilar fyrir Orleans Loiret í Frakklandi. Hann spilaði að meðaltali 29,2 mínútur í leik í riðlakeppninni. Skotnýting hans var 70% utan af velli og 82,4% á vítalínunni. Olaseni skoraði úr 35 af 50 tveggjastiga skotum en hann tók ekki eitt einasta þriggja stiga skot í keppninni.

Framlagshæsti leikmaður Íslands í keppninni var Martin Hermannsson með 12,8 í framlag að meðaltali í leik. Hann var einnig með 12,8 stig að meðaltali í leik.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira