Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR 0 - 3 ÍBV | ÍBV úr fallsætinu eftir frábæran sigur - Sjáðu mörkin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
ÍBV vann gríðarlega mikilvægan sigur í fallbaráttunni í Pepsi deild karla í dag. Þeir sóttu öll stigin þrjú sem í boði voru í vesturbæ Reykjavíkur með 0-3 sigri á KR-ingum.

Eyjapeyinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði fyrir gestina í fyrri hálfleik, áður en Hafsteinn Briem og Sindri Snær Magnússon gengu frá leiknum fyrir ÍBV í þeim síðari.

Gestirnir mættu gríðarlega ákveðnir til leiks í dag, enda til mikils að vinna fyrir þá. Með sigrinum eru þeir komnir upp úr fallsæti, senda Víking Ólafsvík í 11. sætið á markatölu. Víkingar mæta hins vegar Fjölni í dag, en öll þessi þrjú lið eru nú með 19 stig í deildinni.

KR-ingar virtust ekki lifna við fyrr en um korter var eftir af fyrri hálfleiknum. Þá áttu þeir nokkur ágæt færi, en náðu ekki að nýta sér þau. Hálfleiksræða Willum Þórs Þórssonar gerði lítið til þess að kveikja í mönnum, þeir komu inn í seinni hálfleikinn eins og þann fyrri, bara mættu alls ekki til leiks.

Annað mark Eyjamanna kom á 57. mínútu, og þrátt fyrir að hálftími væri eftir af leiknum þá gerði markið út um leikinn. Eyjamenn vörðust það vel að sigurinn var aldrei í hættu eftir annað markið.

Sindri Snær Magnússon negldi svo síðasta naglann í kistu KR-inga í uppbótartíma og kórónaði frábæran dag hjá sér og Eyjamönnum.

Afhverju vann ÍBV?

Þeir voru einfaldlega miklu betri. Þeir ógnuðu marki KR-inga oft og vörðust mjög vel. Það sást í leik þeirra að þeir voru mættir til leiks, tilbúnir að berjast til síðasta blóðdropa til að halda sæti sínu í deildinni. Að sama skapi voru KR-ingar mjög daprir í leiknum og ógnuðu marki ÍBV bara í korter undir lok fyrri hálfleiks, annars ekkert að ráði allan leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Fyrirliði Eyjamanna, Sindri Snær, átti mjög góðan dag í dag. Hann hefur oft átt fínar frammistöður með ÍBV í sumar og hélt því áfram í dag. Barðist mjög vel, var sterkur fram á við og skoraði svo glæsilegt mark undir lokinn.

Íraninn Shahab Zahedi Tabar átti sinn besta leik í treyju ÍBV í dag. Hann hefur ekki heillað undanfarið, allavega ekki undirritaða, en hann var mjög sterkur í dag. Átti stoðsendinguna inn á Gunnar Heiðar í fyrsta markinu og komst í tví eða þrígang í mjög góð færi og var í raun óheppinn að hafa ekki náð að setja mark sjálfur.

Hvað gekk illa?

Hjá heimamönnum gekk allt illa. Danirnir þrír í fremstu víglínu voru vart sjáanlegir, sá eini sem lét sjá sig var Kennie Chopart, og þá var hann aðallega áberandi fyrir pirring. Restin af KR-liðinu voru allir langt frá sínu besta, og miðað við frammistöðuna hér í dag áttu þeir ekkert skilið út úr þessum leik.

Hvað gerist næst?

KR-ingar fara í Kópavoginn og heimsækja Blika. Aðeins tvö stig skilja liðin að eins og staðan er núna, og því spennandi leikur í baráttunni um 3. – 8. sætið í þessari þéttu deild. Eyjamenn taka á móti sputnik-liði Grindavíkur á Hásteinsvelli. ÍBV verður að sækja sigur ætli þeir sér að láta frammistöðuna hér í dag skipta einhverju máli og halda sér í deildinni.

Willum Þór Þórsson, þjálfari KR.Vísir/Eyþór
Willum: Ekkert jákvætt úr leiknum

„Það er þungt á því núna,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, eftir leikinn. „Við vorum slakir í dag, bara eitt orð yfir það.“

„Þeir mæta mjög grimmir. Þrátt fyrir að hafa talað um að vera tilbúnir í þá, við vissum þeir myndu koma brjálaðir inn í þetta, þá einhvern veginn gefum við eftir og þeir ná frumkvæðinu. Þeir eru mjög erfiðir ef þeir ná frumkvæðinu.“

KR-ingar voru fyrir leikinn í 3. sæti deildarinnar, og eru það reyndar enn þar sem þetta var fyrsti leikur umferðarinnar, en ÍBV í fallsæti. Willum segir þá samt ekki hafa vanmetið Eyjamenn.

„Nei, við vitum að allir leikir í þessari deild eru erfiðir. Þeir eru þéttir til baka, Bretarnir tveir sem þeir fá síðsumars hafa gerbreytt þessu liði, það er bara þannig.“

Aðspurður hvort það væri eitthvað jákvætt hægt að taka úr leiknum sagði Willum einfaldlega: „Nei. Ekki neitt.“

Kristján Guðmundsson var sáttur með sína menn í dag.VÍSIR/eyþór
Kristján: Hjápar sálartitrinu

„Þetta var vel spilað hjá strákunum. Við vorum einbeittir á að framkvæma það sem við ætluðum að gera, spiluðum boltanum í þau svæði sem við vildum í uppspilinu. Náðum að nýta leikmennina mjög vel og þeirra eiginleika, og varnarleikurinn var mjög góður líka,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV.

„Það eru fjórir leikir eftir. Við skoðum að sjálfsögðu töfluna þegar þetta er búið, en þetta hjálpar verulega upp á sálartitrið, það er engin spurning með það.“

„Við erum meðvitaðir um það að við þurfum að vinna fleiri leiki en bara þennan,“ bætir Kristján við.

Aðspurður hvað hafi staðið upp úr hjá sínu liðið sagði Kristján: „Fyrst og fremst, samheldni og einbeyting. Við duttum aldrei í það að hugsa um einhverja hluti sem við réðum ekki við, eitthvað sem við höfðum ekki áhrif á. Varnarleikurinn mjög þéttur og sóknarloturnar fínar.“

„Mjög got að skora eftir fast leikatriði, það var einn af þeim punktum sem við fórum með inn í leikinn.“

Fyrri leikur liðanna, sem fram fór í Eyjum 15. júní síðast liðinn, endaði líka með sigri ÍBV. Hefur Kristján Guðmundsson fundið uppskriftina af því að sigra Vesturbæinga?

„Í fyrri leiknum þá settum við höfuðáherslu á að skora úr föstum leikatriðum og það gerðum við að mig minnir tvisvar þar. Náðum að loka á sóknarleik þeirra. Við spiluðum aðeins öðruvísi núna varnarleikinn þá þó við höfum verið nánast í sömu uppstillingu. Reyndum að vinna þá inn í önnur svæði heldur en í fyrri leiknum og það tókst mjög vel og við unnum boltann á þeim stöðum sem við vildum vinna hann.“

„Að verjast fyrirgjöfum með fimm menn inni, það er ekkert vandamál fyrir okkur,“ sagði Kristján að lokum.

Sindri Snær átti góðan leik í dagvísir/andri marinó
Sindri Snær: Helvíti gaman að skora á KR-vellinum

„Við þurftum nauðsynlega á þessum stigum að halda, þannig við erum mjög glaðir,“ sagði Sindri Snær Magnússon, fyrirliði ÍBV, að leik loknum.

„Mjög góðir, þéttir og grimmir,“ sagði Sindri aðspurður um hvað honum þætti um frammistöðu ÍBV í dag. „Byrjum leikinn af krafti og þeir byrja að láta dómarann heyra það, fannst mér. Það voru læti í þessu og við urðum ofan á.“

Sindri, sem skoraði lokamark leiksins, hefur skorað þrjú mörk gegn KR-ingum í sumar. Hann segir það þó tilviljun að mörkin komi gegn Vesturbæingum. „Það hefur einhvern veginn hitt á bara KR, ég veit ekki af hverju. Það er mjög gaman að skora og skiptir ekki máli á móti hverjum, en það er helvíti gaman að skora hérna á KR-vellinum.“

Hafsteinn Briem skoraði annað mark ÍBV og virtist úr blaðamannastúkunni sem boltinn hefði farið í hendina á varnarmanninum í aðdragandanum. Sindri sagðist ekki hafa getað séð að markið hefði ekki átt að standa.

„Nei, ég held ég hafi legið eða dottið þarna, var í einhverri baráttu þarna á undan. Svo hamrar Haffi í einhvern KR-ing og fær hann aftur og klínir hann í hliðarnetið. Við bara fórum beint að fagna og erum ekkert að pæla í því.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira